Þingmenn standa frammi fyrir vanda, sem er reyndar ekki neitt nýtt!
Vandinn sem við blasir snýst um það hvort ,,Borgarneskosningarnar“ hafi verið meira klúður eða minna og niðurstaðan er: Klúðrið var mikið.

Dámsmálaráðherra kveður upp úr með, að breyta þurfi stjórnarskránni, sem er líklega rétt en ekki má samt gleyma því, að menn þurfa að vanda sig við talningu atkvæða og fyrir það fyrsta að telja rétt!
Þetta verður vonandi lagað svo fljótt sem verða má en fyrst öllu er að vanda til verka þegar atkvæði eru talin.
Við treystum ráðherranum í þessu máli og við treystum Landhelgisgæslunni til að draga bilað skip til hafnar en hugsum til þess, að það er að verða talsvert algengt að erlend flutningaskip lendi í vanda þegar þau eru að sigla á milli hafna hér við land, ýmist með því að sigla í strand eða bila.

Tveir þingmenn og hvorugur í fríi, velta líka fyrir sér niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og það er að vonum, því að þeim læðist grunur um, að þeir séu ekki réttir menn á réttum stað og réttum tíma!

Húsnæðismálin eru í uppnámi enn einu sinni og vitanlega batnar staðan ekki við að missa heilt bæjarfélag úr byggð vegna eldgoss.
Síðast þegar það gerðist, neituðu menn að yfirgefa eyjuna sína, sprautuðu köldum sjó á glóandi hraunið og höfðu betur.
Ekki er saman að jafna núna, því undirstöður Grindavíkur eru krosssprungnar og ekki annað að sjá en bærinn sé afar hættulegt búsvæði og það er dapurlegt, að svona sé komið fyrir þessum glæsilega útgerðarbæ.

Við endum þetta með að vekja athygli á aðsendri grein í Morgunblaðinu (17.4.2024), þar sem fjallað er um hið umdeilda sameiningarmál afurðastöðvanna í landbúnaði, sem framsóknarmenn nokkurra flokka börðu í gegnum þingið á dögunum.
Var það gott eða var það vont, það er efinn!

Færðu inn athugasemd