Útflutningsmál og önnur mál

Það sem hér er vísað í, birtist í Morgunblaðinu (18/4/2024).

Sagt er frá því að hugur manna standi til að rækta jarðarber á Íslandi og flytja þau til Japan, þá á einnig að ,,rækta wasabi og brugga sake-vín“.

Möguleikarnir eru sem sé endalausir og tækifærin bíða gjarnan handan við hornið, ef að er gáð. Það er í Helguvík sem framleiðslan á að fara fram og menn vilja í leiðinni, styrkja tengslin milli Japan og Íslands.

Þá segir frá því að þörf sé á aukinni orkuvinnslu (hvað sem Vinstri græn segja) og Orkuveitan mun kynna stefnu sína í þeim málum í dag.

Hvort þar muni verða fulltrúar frá Vg vitum við ekki en ekki er það ólíklegt, því einhverjir verða að standa sig í stykkinu varðandi púið!

Við bíðum spennt eftir hvað út úr þessu kemur en víst er að það vantar meiri orku.

En að öðru!

Formaður atvinnuveganefndar skrifar langhund, sem hér sést sýnishorn af, til varnar nýjum búvörulögum en eins og margir vita var þeim lætt í gegnum þingið af slíkri snilli að sumir þingmenn sem að málinu komu, vissu vart hvað var að gerast!

Lagafrumvarpið heimilar samþjöppun og samgróning afurðastöðva í landbúnaði og Framsóknarmönnum þykir það sem sé gott og við vitum það eftir lesturinn, ef við skildum ekki hafa vitað það fyrr!

Að lokum sjáum við að til stendur að ,,stórauka fé“ til vegamála. Það skal tekið skýrt fram að ekki er um að ræða hið margrómaða vegafé sem sauðfjárbændur beita á vegstæði þjóðarinnar sér til hagræðis en sauðkindum og vegfarendurm til háska.

Góðu fréttirnar eru sem sé þær að til stendur að setja 370 milljarða í samgöngu og fjarskiptamál. Það síðarnefnda þarf að efla vegna þess sem fyrr sagði varðandi slysin sem verða og rekja má búfénaðar, aðallega sauðkinda sem vafra um á vegunum.

Færðu inn athugasemd