Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri fyrirtækja í landbúnaði skrifaði grein í Morgunblaðið á dögunum og sagði þar frá nýrri undanþágu sem landbúnaður hefur fengið hjá Evrópusambandinu.

Í grein sinni segir hún m.a.:
,,Um áratugaskeið hafa gilt undanþágur fyrir landbúnaðinn frá samkeppnisreglum ESB. Ástæðu þess má rekja til þess að stofnríki Efnahagsbandalags Evrópu töldu, allt frá stofnun bandalagsins 1958, að markmiðum landbúnaðarstefnu bandalagsins yrði ekki náð með óheftri samkeppni, enda ljóst að markmið samkeppnisreglna væru önnur en markmið landbúnaðarstefnu ESB. Því hafa undanþágureglur frá samkeppnisreglum gilt fyrir landbúnaðinn allt frá upphafi stofnunar ESB.“
Og í niðurlagi:
,, Íslensk stjórnvöld hafa boðað að þau hyggist beita sér fyrir því að bændur dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda og þessi nýja undanþáguregla getur fallið vel að þeirri stefnu. Þá er hún einnig í samræmi við stefnumið landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til 2040 – að tryggja með löggjöf að innlendir framleiðendur landbúnaðarvara hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum.“
Síðan segir að fyrirtæki í landbúnaði séu að ,,greina“ umrædda undanþágu meðal annars, með tilliti til markmiða í umhverfismálum, en þau mál ber nokkuð á góma í grein Margrétar.
Til hliðar við þá grein sem er hér að ofan, eru tvær klippur af innleggi þingmanns Framsóknarflokksins í umræðuna sem orðið hefur vegna heimildar til sameiningar fyrirtækja í landbúnaði, sem samþykkt var á alþingi nýlega.
Umrædd lög fjalla að mestu um heimild afurðastöðva í vinnslu sauðfjárafurða til samruna og samstarfs.
Heimild sem að mati þess sem þetta skrifar var með öllu óþörf, því ekkert ætti að vera í vegi þeirra sem vilja leggja niður rekstur slíkra fyrirtækja, ef þeir kjósa svo að gera.
Að hætti Framsóknar, var farin önnur leið svo sem við mátti búast og mun framtíðin leiða í ljós hversu mikið gæfuspor þar var stigið.
Málið tengist að nokkru stjórnarbyltingu sem gerð var hjá Bændasamtökunum, þar sem sauðfjárbændur lögðu samtökin undir sig á síðasta aðalfundi.
Þar dugði ekki að hrekja formann samtakanna úr sæti sínu, heldur var líka gengið svo langt í hreinsunum, að framkvæmdastjóranum, sem unnið hafði samtökunum vel um árabil, var einnig vikið frá.
Hvernig hinni nýju stjórn tekst til, varðandi það verkefni að byggja upp trúnað milli stjórnar og búgreina, annarra en sauðfjárræktarinnar, kemur tíminn til með að leiða í ljós, en illt er að eyða því sem vel hefur gefist og vel þarf hið nýja að reynast, ef það sem í staðinn kemur, verður til bóta.
Bændasamtökin eru alla vega á þessum tímapunkti komin aftur til fortíðar, hvað sem síðar kann að gerast á þeim vettvangi.

Færðu inn athugasemd