Bankamál, orka, orkuleysi og hvalræði

Það fer þversum í þingmenn ríkisstjórnarinnar að banki kaupi tryggingarfélag.

Ástæðan er óljós og helst er svo að sjá, sem verið sé að rífast um keisarans skegg og eins og eðlilegast er með skegg, þá heldur það áfram að vaxa!

Hvers er hvurs og hvurs er hvað er ekki gott að segja en að læðist grunur um að verið sé að deila um, hvort vildarvinir og þá hverjir þeirra, hefðu ekki átt að fá að koma betur að málinu og fleyta smá rjóma.

Það er víða sem þarf að bæta ástand raforkumála, bæta dreifingu og ekki síst afla orku, en eins og við vitum, þá er það ekki hægt með Vinstri græn í ríkisstjórn.

Það er vægt til orða tekið að segja að ríkisstjórnin ráði ekki við verkefnin, sem eins og segir hér að ofan, stafar m.a. af því hvernig stjórnin er samsett.

Vinstri græn vilja ekki fleiri virkjanir vegna þess að þeir sjá frelsið, framtíðina á annan hátt en við hin.

Það er hart að þurfa að segja það, að flokkurinn sem farið hefur með forustu í ríkisstjórninni um árabil sé veruleikafirrtur en þar sem það er grjóthörð staðreynd, þá verður ekki hjá því komist.

Bókvitið verður ekki í askana látið, segir gamalt máltæki og þó okkur bókaormunum finnist kenningin hörð, þá verður að horfast í augu við að orðtakið er að nokkru rétt.

Þeir sem skrifa bækur, lifa því aðeins á því, ef einhverjir finnast, sem vilja lesa bækur sér til ánægju eða fróðleiks.

Það er verið að þrýsta á ráðherra varðandi heimildir til hvalveiða.

Við vitum hvernig það gekk á síðustu vertíð, þegar niðurstaða ráðherrans varð, að fresta skyldi hvalveiðunum fram á haustið, trúlega í þeirri von að haustveðrin myndu eyðileggja vertíðina.

Nú er verið að reyna að ná fram heimild til veiðanna, en hvorki gengur né rekur og það þó: Sjálfstæðisflokkurinn fari með forustuna í ríkisstjórnarsamstarfinu.

Vinstri græn segja nei og þar við situr og eftir japl jaml og fuður, verður niðurstaðan trúlega sú, að Sjálfstæðisflokkurinn leggur niður rófuna, leggst í bælið sitt og fer að draga ýsur; gleymir sér í draumaheimi og gleðst t.d. við að hugsanlega verði hægt, að koma TM í hendur vel valdra vildarvina.

Fari svo er hægt að gleðjast yfir góðum árangri, því banki allra landsmanna verður minna virði og það þykir þeim gott, því ef allt fer á besta veg lækkar virði Íslandsbanka líka, þannig að hægt verði að koma honum í réttar hendur fyrir vikið!

Færðu inn athugasemd