Fornleifafræðingar hafa verið að leita og þeir hafa fundið margt.

Ýmislegt hefur komið í ljós við uppgröft í Pompei og myndirnar eru ótrúlega vel varðveittar.
Borgin fór í eyði eftir eldgos árið 79 e.Kr., eða réttara sagt grófst í ösku en hefur verið grafin upp á seinni árum.
Það er áhugavert fyrir okkur Íslendinga, að fram hafa komið hugmyndir um að gosið hafi orðið vegna svokallaðs ,,heits reits“ djúpt í jörðu og sumir a.m.k. telja að einn slíkur sé undir Reykjanesinu okkar, þar sem gengið hefur á með eldsumbrotum að undanförnu.

Vinur okkar, sem við sjáum á myndinni, er nánast alveg örugglega ekki að hugsa um slíka hluti en verið getur að hann sé að spá í, að gerast íslenskur ríkisborgari, því þannig stendur á hjá honum að hann er kominn á eftirlaunaaldur, orðinn 67 ára og hefur unað hag sínum vel, eftir því sem best er vitað.

Matvælaráðherra var sakaður um lygar af framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda sem fer mikinn þessa dagana, vegna furðulegrar afgreiðslu lagafrumvarps um matvælaframleiðslu.
Frumvarpið mun hafa gengið út á, að sameina mætti sauðfjársláturhús eftir því sem menn hafðu löngun til.
Sauðfjárræktin lagði undir sig Bændasamtökin fyrir nokkrum dögum og gerði það í krafti fjöldans sem búgreinina stunda og alveg burtséð frá því hvað eftir liggur í framleiðslu eftir hvern framleiðanda, eða greinina alla.
Þar með eru samtökin horfin aftur til þess sem áður var og eru í raun orðin fyrst og fremst samtök sauðfjárbænda, sem öllu vilja ráða en samt njóta stuðnings þeirra sem í annarri framleiðslu eru.
Þessu hafa náttúrulega engir áhuga á, nema þeir sem landbúnað stunda. Ríkisstjórninni er a.m.k. nákvæmlega sama um það, sem flest annað sem máli skiptir.
Ríkisstjórnin nýskipaða – eftir brotthvarf Kötu sem vill á Bessastaði – hefur lítinn áhuga á öðru en því, hvort banki megi kaupa tryggingarfélag af öðrum banka og sýslar við bankasýslu í þeirri von, að hægt verði að mylja vel undir velviljaða vildarvini og er svo upptekin við þetta bras allt saman, að þau muna tæpast eftir því að grafalvarlegt umbrotatímabil sé upp runnið á Reykjanesi.
Muna ekki eftir því nema í hjáverkum, að heilt bæjarfélag sé komið í eyði vegna hamfara, sem enginn mannlegur máttur getur ráðið við.

Í guðs eigin landi, þar sem tveir gamlingjar eru komnir með kosningaskjálfta, keppast menn við að finna eitthvað slæmt til að klína hver á annann.
Forsetinn sem nú situr, á son og sá er duglegur við að sulla í einhverju sem ekki á að sulla í, nema illa eigi að fara, sem fæstir munu vilja!
Sá sem er forseti, sækist efir því að vera forseti áfram, þrátt fyrir að berjast við hrumleika.
Sá sem að honum sækir, berst við aðrar hvatir, sem hann mun hafa átt erfitt með að hafa stjórn á. Hvort hann hefur stjórn á þeim nú orðið, vitum við ekki.
Það er sem sagt ólíkt sem menn hafast við á Íslandi og í USA.
Á Íslandi keppast menn við að rífast um peningamusteri sem eru í rauninni kofar, en í Bandaríkjunum er verið að vandræðast með ómerkilegheit, ofnáttúru og ónáttúru.
Hvort sé betra og hvort sé verra, leggjum við ekki mat á.

Færðu inn athugasemd