Það er kominn morgunn

Við sjáum í heimi dýranna, það sem við vildum gjarnan að væri meðal okkar í mannheimum og víst er að margt er hægt að læra af dýrunum þegar að er gáð. 

Hér kúra saman einstaklingar af ólíkum stofni annars vegar, en til hægri, er sem ástin í sinni fegurstu mynd, birtist okkur. 

Gott væri nú ef það sama mætti segja um okkur sem sífellt tökumst á og deilum um keisarans skegg. Erum hreint ótrúlega fundvís á eitthvað til að rífast um og ef ekkert finnst, þá búum við það til og það vefst svo sannarlega ekki fyrir okkur. 

Deilum um staðreyndir sem við lögum til, þannig að þær falli vel að þeim hugmyndum sem við teljum réttastar. 

Dýrin standa ekki í þessu. Þau koma sér saman ef þeim sýnist svo og geta fellt sig hvert að öðru þegar þau eru búin að mynda traust sín á milli. 

Lykilorðið er traust!  

Við getum mikið af sakleysingjunum lært, ef við aðeins viljum. 

Vilji er allt sem þarf, var einu sinni sagt og það er rétt. Ef viljinn til góðs er ekki fyrir hendi þá gerist ekki neitt gott milli okkar, hvort heldur sem er í mannheimum eða dýraríkinu. 

Er ekki gott, að hugleiða þetta í rólegheitum þegar við erum nývöknuð, vonandi af góðum svefni? 

Verður manni þá hugsað til þeirra sem ekki geta notið góðs svefns af einhverjum ástæðum. 

Gætum við kannski bætt hag þeirra ef við leggjum okkur fram? 

Færðu inn athugasemd