Frestunin, vinnslan og námið

Forsætisráðherrann sem var fékk vitrun, komst að því að hún var á röngum stað á röngum tíma, ákvað því að hætta og gerast frekar forseti.

Ákvörðun sem þessi hefur ýmsar afleiðingar og svo er komið, að eitt og annað er á eftir tímanum, ,,hefur tafist“ en það er ,,von“ um að eitthvað verði gert á næstunni!

Tekið hefur verið eftir því, að fyrrverandi fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og nú forsætisráðherra, hefur verið vegna þessa, upptekinn í meira lagi sem eðlilegt er, því nú er fjör og nú er gaman!

Forsætisráðuneytið er komið í ,,réttar“ hendur og það hefur sannarlega verið fundað og prédikað af minna tilefni. Það er hugur í formanninum og það svo að við vitum ekki alltaf hvort hann er að koma eða fara úr ræðustólnum.

En svo eru það hinir sem eru að hugsa um að gera eitthvað. Gera jafnvel eitthvað úr einhverju, eru vanari því að taka á hlutunum frekar en að tala um þá.

Við sjáum dæmi um það í þessari frásögn, þar sem sagt er frá því að ætlunin sé að vinna sand næstu 30 árin.

Þeir eru sem sagt til, sem ætla sér að gera eitthvað úr einhverju, í stað þess að tala bara um það og gera síðan ekkert.

Þau undur og stórmerki virðast vera framundan, að til standi að setja fjármagn í verknám og verður að telja það nokkrar fréttir.

Fram til þessa, hefur í tíð núverandi og fyrrverandi pólitíkusa, verið unnið að því að brjóta niður verk- og starfsnám í þeim tilgangi að geta elft og þróað vísindagreinina dómstörf.

Og þeirri þróunareflingu fylgir að koma þarf(?) Sjómannaskólann sem lengst frá Reykjavík og losa úr húsnæðinu nemendur og kennara sem er númer eitt, en líka tæma úr húsnæðinu allan tækjabúnaðinn sem í því er, þannig að það verði sem tóm skel.

Því þá fyrst er hægt að nota húsið til þess að dæma mann og annan.

Námið á samt ekki að leggja niður, því til stendur að flytja það hreppaflutningum til Hafnarfjarðar.

Þar mun það síðan fá að vera um sinn, eða þar til að hinir vitru menn komast að því, að þar sé ekki nógu afskekkt fyrir óæðra nám.

Hvert það nám verður flutt þegar þar að kemur vitum við ekki en efumst ekki um, að því verði fundinn staður, einhversstaðar fjarri heimsins háskólaglaumi.

Færðu inn athugasemd