
Það er ró og friður yfir vinum okkar á myndinni og það virðist engu skipta þó allir séu ekki eins, en þó tökum við eftir því að á myndinni sem er lengst til hægri eru allir eins, ef svo má segja.
Samt má greina óværð og ósamstöðu ef að er gáð.
Þar er verið að sækja sér næringu hjá stóru mömmu sem allt vill gera fyrir litlu krílin sín. Hún nýtur þess að veita og næra og gætir þess að allir fái jafnt.
Hún er sem sé sjálfstæður- broddgöltur sem veitir og nærir þegar hún er í stuði til þess. Það er að segja þegar hún þarf að létta á þrýstingnum, þannig að henni geti sjálfri liðið vel.
Þannig er þetta í dýraríkinu og við sjáum að það er ekki mjög ólíkt því sem það er í mannheimum.

Það hefur eitt og annað verið að gerast hjá okkur tvífætlingunum og það er ekki víst að alltaf hafi verið gefið jafnt og svo langt gengur að ráðuneyti ,,snuprar“ ,,nefnd og nýjan ráðherra“.
Við skiljum sumt betur en annað og það er því erfitt að átta sig á hvernig stofnanir, sérstaklega hins opinbera, geta gerst svona lifandi ef svo má segja.
Skiljum hins vegar afar vel að Bjarni ætli að ,,nýta tímann“, því það er kunnuglegt stef sem oft hefur heyrst áður.

Ef rýnt er í það sem hér er á ferðinni, þá sjáum við að um er að ræða sama fólkið sem tyllir sér í ríkisstjórnarstólana.
Svo er að sjá sem splæst hafi verið í nýja stóla fyrir hina nýju vald- haf- endur og til að fyrirbyggja misskilning, þá er rétt að taka fram að alls ekki er um að ræða endurnar okkar kæru á Tjörninni – þær hvorki fá né þurfa stóla.
Þau sem fá stóla eru þau sömu og áður voru, að mestu -, það er lítið um nýtt vín á nýjum belgjum, nær væri að segja að um sé að ræða hina gömu og margtuggðu tuggu: gamalt vín á gömlum belgjum.
Við vonum, hvað sem þessum vangaveltum líður, að nýja gamla stjórnin reynist ekki mikið verri en sú sem var að fara og reyna að hverfa en tókst ekki.

Færðu inn athugasemd