Ættu ekki allir að vera jafnir?

Þann níunda mars síðastliðinn var sagt frá því í Morgunblaðinu að kjúklingabændur hafi komið á framfæri gagnrýni á Matvælastofnun.

Gagnrýnin er hvorki mikil né alvarleg. Það er aðeins bent á að eitt eigi að ganga yfir alla, að allir eigi að vera jafnir og engin ástæða er til að ætla annað en að starfsmenn umræddrar stofnunar vilji að svo sé.

Stofnuninni er ætlað það hlutverk m.a. að fylgjast með hvernig búið sé að þeim dýrum sem notuð eru í íslenskum landbúnaði.

Gerð er krafa til bænda um að þeir búi vel að dýrum sínum og stofnunin fylgist síðan með því hvort svo sé gert.

Hlutverk Matvælastofnunar er reyndar víðtækara, því eftirlitið nær til húsakosts, neysluvatns o.fl.

Bændum þykir almennt gott að fá starfsmenn MAST í heimsókn, því gott er að fá góðar ábendingar, glöggt er gests augað og ef eitthvað er sem gera þarf til úrbóta, þá er hægt að bregðast við því og laga og bæta.

Ekki má heldur gleyma því, að það skilar sér síðan með betri afkomu frekar en hitt.

Glöggt er gests augað segir máltækið og það gildir í þessu sem öðru, en vissulega er ekki sama hvernig farið er með þær niðurstöður og þau gögn sem til verða og aðgát skal höfð í meðferð þeirra gagna.

Fjölmiðlun í nútímasamfélagi getur verið óvægin, að ekki sé sagt óvönduð og til eru þeir í hópi fjölmiðlunga sem nærast á því, að slá upp þeim fyrirsögnum sem selja og m.a. vegna þess, er gott að farið sé vel með og málefnalega um fjallað, að rétt sé farið með og að jafnt gildi um Jón og séra Jón.

Og þannig er það hjá Matvælastofnun eftir því sem við best vitum.

Gagrýnin sem um er rætt, felst í því að deild kjúklingabænda innan Bændasamtakanna hafi:

,,óskað er eftir því að stjórn BÍ beiti sér fyrir því gagnvart MAST að sett verði upp gagnagátt með þeim málum er kjúklingabúskap varða. Borið hafi á óskýrum ferlum við tilkynningar um frávik í kjúklingabúskap. […] Mikilvægt sé að bændur geti nálgast öll sín mál, tilkynningar og annað slíkt, á einum öruggum stað.“

Og:

„Alla jafna gengur samstarfið við MAST og starfsmenn þar vel. Bændur telja samt sem áður að sumt megi bæta svo að samstarfið sé snurðulaust og uppbyggjandi. Bændur leggja sig í líma við að fylgja lögum og reglum til hins ítrasta og stofnuninni ber að hafa eftirlit með því að svo sé. Á því ríkir gagnkvæmur skilningur,“ segir […] formaður deildar kjúklingabænda, í samtali við Morgunblaðið.

Síðar segir:

,,Eftirlitsskýrslur og myndir eigi ekki að fara í hendur annarra en þeirra sem málið varðar. Gögn megi auðveldlega slíta úr samhengi og mistúlka af þeim sem ekki þekki til mála. Hugsanlega séu miklar ályktanir dregnar af stöku atriðum sem kunni að vera í ólagi og þau blásin upp í umfjöllun þegar annað sé í stakasta lagi. Einnig orki tvímælis að ef bóndi sé með starfsemi á eigin kennitölu lúti upplýsingar um búskap hans persónuvernd, en öðru máli gegni ef búið sé á kennitölu fyrirtækis. Þá megi greina frá málavöxtum.

Það er sem sagt bent á að eitt eigi yfir alla jafnt að ganga, óháð rekstrarformi og hlýtur það að vera eðlileg ábending.

Rekstrarformið getur ýmist verið hjá t.d. einkahlutafélagi eða í nafni einstaklings og svo er að skilja, sem uppýsingar séu ekki á lausu ef reksturinn er á nafni einstaklings, en sé það í nafni hlutafélags þá gildi annað.

Auðvelt er að finna út, hver eða hverjir standa að hlutafélagi, þannig að þessi vinnuregla þjónar ekki öðrum tilgangi en að hlífa einum en ekki öðrum og alls ekki er líklegt, að það hafi verið markmið þeirra sem regluna settu á sínum tíma.

Það færist stöðugt í vöxt að rekstur í landbúnaði sem öðru, sé í nafni t.d. hlutafélags eða einkahlutafélags og því er rétt að þetta regluverk sé endurskoðað.

Færðu inn athugasemd