Það er ekki góð einkunn sem fráfarandi formaður Bændasamtakanna gefur þeim sem við tóku eftir stjórnarskiptin hjá samtökunum.
Byltingu sem segja má að gerð hafi verið af hálfu sauðfjárbænda og sem byggist á því atkvæðamagni sem búgreinin ræður yfir í krafti fjöldans sem hana stunda, en ekki verðmæti þeirra afurða sem framleiddar eru.
Búgreinin er rekin að stórum hluta á framlögum úr ríkissjóði sem niðurgreiðir afurðirnar, og greiðir auk þess útflutningsuppbætur svo hægt sé að losna við framframleiðsluna úr landi.
Gera má ráð fyrir að fjármögnun og rekstur útflutingsfyrirtækis Icelandic Lamb, sem komið var á fót til að leita að mörkuðum og koma lambakjötsframleiðslunni í verð, sé þegar nánar er skoðað fjármagnað af almannafé.
Reglur til stjórnarkjörs í Bændasamtökunum eru þannig að það er fjöldi þeirra sem búgein teljast stunda sem ræður vægi atkvæða. Ekki hver raunverðmætin eru sem til verða vegna framleiðslunnar.
Væru sauðfjárbændur 1000, nautgripabændur 300, svínabændur 100, garðyrkjubændur 100, alifuglabændur 50 o.s.frv., þá gætu sauðfjárbændur tryggt sér alla stjórnarfulltrúa í samtökunum ef þeir vildu. Höfum líka í huga að stærstur hluti þessara 1000 sauðfjárbænda gætu verið fólk sem væri með sauðfé sér til gamans en ekki til lífsafkomu.
Það sér vitanlega hver maður að kerfi af þessu tagi er handónýtt og ættu menn að leiða hugann að því hvernig færi t.d. fyrir S.I. ef reglur þar á bæ væru með þessum hætti.

Rætt er við Gunnar Þorgeirsson í Heimildinni og óhætt er að segja að þeir sem tóku við stjórn Bændasamtakanna hafi fallið á fyrsta prófinu m.v. það sem þar kemur fram og rétt er að taka það fram, að boðuð er meiri og ítarlegri umfjöllun um málið, sem birtast muni í Heimildinni á næstunni.
Ég veit ekki hvað Framsókn fékk í staðinn, er sagt í fyrirsögn og í yfirskrift stendur eftirfarandi:
Fráfarandi formaður Bændasamtaka Íslands segir að vinnubrögðin við nýsamþykktar breytingar á búvörulögum hafi verið „subbuleg“. Afurðastöðvum hafi verið leyft að stýra för. Hann er hugsi yfir hæfi formanns atvinnuveganefndar í málinu.
,,Afurðastöðvarnar stýrðu þessu. Það voru ekki bændur sem gerðu það, það er langur vegur frá,“ segir Gunnar Þorgeirsson, fráfarandi formaður Bændasamtaka Íslands og á við breytingarnan á búvörulögunum sem gerðar voru af Alþingi […]“
Hann segir að samþykktin um breytingu á búvörulögunum gefi mönnum möguleika á víðtæku samráði varðandi verðlagningu búvara
,,Gunnar laut í lægra haldi í formannskosningu í Bændasamtökunum í byrjun síðasta mánaðar. Ekki löngu síðar gerði meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis róttækar breytingar á frumvarpi sem Bændasamtökin höfðu áður varað við að tryggðu bændum ekki bættari kjör. Eftir formannskjörið lagðist hins vegar nýr formaður á sveif með lagabreytingunni sem gekk þá orðið mun lengra og fullyrt var að tryggði enn síður að bændur eða neytendur nytu góðs af henni.“
„Já, eins og þetta er núna er ekkert í lögunum sem getur tryggt það að bændur njóti afrakstursins. […] Hann bendir á að í fyrri útgáfu frumvarpsins hafi verið sérstaklega kveðið á um að fyrirtækin sem fengju þessa heimild væru í eigu bænda og undir stjórn þeirra. Því hefði hins vegar verið breytt eins og frumvarpinu öllu. Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, leiddi þessa breytingu og viðurkenndi að hafa notið liðsinnis lögmanns Samtaka fyrirtækja í landbúnaði við frumvarpsgerðina.“ (Leturbreyting síðustu setningar er gerð af höfundi þessarar samantektar)
Gunnar gefur vinnubrögðunum ekki háa einkunn sem vonlegt er m.v. það sem fram er komið og kallar þau ,,subbuleg“ og segist vera hugsi yfir ,,hæfi formanns atvinnuveganefndar til að skrifa og leggja frumvarpið fram“.
Best er að lesa frétt Heimildarinnar í heild en sá sem hér skrifar, hefur líkt og Gunnar áhyggjur af hvert Bændasamtökin eru að stefna og það er vissulega áhugavert, að fram komi sjónarmið hins fráfarandi formanns.
Gunnar lagði sig fram um að vera formaður bændastéttarinnar allrar eftir því sem undirritaður þekkir til og gaf kost á sér til áframhaldandi setu í formannssæti, en sauðfjárbændur notfærðu sér einkennilega uppbyggingu samtakanna til að leggja þau undir sig á síðasta aðalfundi.
Uppbyggingu sem byggir á því að það er fjöldi þeirra sem búgrein stunda sem ræður atkvæðavægi varðandi kjör til trúnaðarstarfa á vegum samtakanna en ekki það afurðamagn sem að baki býr. Hver bóndi fer með eitt atkvæði og ekki skiptir máli hvort hann er með t.d. 100 vetrarfóðraðar kindur eða 1000.
Reglan sem byggir á að hver maður sé eitt atkvæði, er búin að sanna sig sem niðurbrjótandi galli í uppbyggingu Bændasamtakanna.
Á það hefur áður verið bent en ekki verið á hlustað og því er það, að fjölmenn sauðfjárbændastétt getur lagt samtökin undir sig, líkt og nú var gert og á sér fyrirmynd frá fyrri tíð og afleiðingarnar eru komnar í ljós og munu væntanlega eiga eftir að koma enn betur fram á næstunni.
Það getur vart talist eðlilegt að búgreinarnar sem byggja á framlögum sem fengin eru í gegnum búvörusamninga við ríkið og hafa sem sagt stóran hluta tekna sinna þaðan, séu allsráðandi í félagsskap bænda; í krafti fjölda þeirra sem búreksturinn stunda, en að ekkert tillit sé tekið til þess sem að baki býr.
Þetta fyrirkomulag felur í sér, að ekki myndast traust milli þeirra sem byggja afkomu sína á því sem ríkissjóður leggur þeim til í gegnum margbrotið styrkjakerfi og hinna sem stunda búskap sem er utan fjárlaga ríkisins.
Það má hugsa til þess hvað kindakjöt og mjólkurvörur myndu kosta í verslunum, ef ekki kæmi til margbrotið styrkjakerfi sem fjármagnað er af almannafé, þ.e.a.s. úr ríkissjóði.
Í framhaldinu spyrja síðan þeirrar spurningar, hvort eðlilegt sé að búgreinarnar sem reknar eru að stórum hluta með framlögum úr ríkissjóði, séu jafnframt allsráðandi í stjórn Bændasamtakanna!
Rétt er að benda á aðsenda grein eftir yfirlögfræðing Bændasamtakanna sem birtist á Visi 27/3/2024, þar sem ýmislegt áhugavert kemur fram varðandi verðlagningu mjólkurafurða. Greinin ber yfirskriftina ,,Einokunarmjólk?“ og við tökum eftir því að það er spurningarmerki á eftir orðinu.
Við rennum síðan yfir viðtal við fráfarandi formann Bændasamtakanna, sem birtist eins og boðað hafði verið í Heimildinni undir fyrirsögninni ,,Uppgjör bændahöfðingja“.
Þar er komið víða við og drepið á ýmislegt sem áhugavert er. Ekki verður kafað ofan í það allt hér en áhugasömum bent á að hægt er að kynna sér efni greinarinnar með því að nota sér tengilinn hér að ofan.
Þar sem undirritaður var að taka þetta saman bárust þær fréttir að farsæll og vel látinn framkvæmdastjóri Bændasamtakanna Vigdís Häsler væri hætt hjá samtökunum.
Vigdís segir í færslu á Facebook að því tilefni:
,,Í dag lét ég af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, skemmtilegu og gefandi starfi sem ég hef sinnt síðastliðin þrjú ár og komið að mörgum krefjandi verkefnum, stórum sem smáum.
Samtökin standa núna styrkum fótum eftir fjárhagslega og félagslega endurskipulagningu og uppbyggingu. Á sama tíma hefur verið byggður upp öflugur og verðmætur mannauður á skrifstofu samtakanna. Þar að auki hafa félagsmenn Bændasamtakanna aldrei verið fleiri og er stefna samtakanna nú orðin skýr eftir vel heppnaða stefnumótun. Rekstur Bændablaðsins hefur einnig verið réttur af og er blaðið nú orðinn mest lesni prentmiðillinn og lesendahópurinn hefur breikkað svo um munar. Almenn umræða um landbúnað sem hluta af mikilvægum innviðum og fæðuöryggi hefur stóraukist. Bændur eru lykilþáttur í að tryggja sjálfsaflahlutdeild íslensku þjóðarinnar í fæðuframleiðslu og höfum við í Bændasamtökunum unnið ötullega að þessu markmiði síðastliðin ár.
Ég skil stolt við starfið og Bændasamtökin sem eru orðin að sterku hagsmunafli sem vinnur í þágu bænda.„
Vigdís getur skilið stolt við Bændasamtökin og ritari óskar henni alls velfarnaðar á hverjum þeim vettvangi sem hún kýs að velja sér.
Óneitanlega slær það talsvert að hún sé að hætta skömmu eftir umskiptin í stjórn samtakanna. Umskipti sem sumir setja spurningarmerki við svo ekki sé tekið dýpra í árinni.
Rétt er að minna á í því sambandi, að atkvæðavægi við stjórnarkjör hjá BÍ er þannig að engu skiptir hvað liggur eftir í framleiðslu landbúnaðarvara hjá þeim sem atkvæði greiða. Það er fjöldi þeirra sem búgrein stunda og þar með teljast bændur, sem ræður atkvæðavæginu.
Afurðamagnið skiptir engu máli í því samhengi. Þannig geta bændur sem eru margir í búgrein með tiltölulega lítið magn á markað miðað við höfðatölu framleiðenda komið sér saman um formann og stjórn.
Með öðrum orðum sölsað undir sig Bændasamtökin líkt og gerðist á dögunum.
Við munum reyna að að fylgjast með hvert samtökin þróast, en það sem sést hefur fram til þessa, bendir til, að um afturhvarf til fortíðar sé að ræða.

Færðu inn athugasemd