
,,Félag um vestræna samvinnu“ er komið á framfæri íslenska ríkisins, enda vandséð hvernig slíkt nauðsynjafélag getur verið til, þrifist og starfað, án stuðnings almennings.
Félagið ku hafa á stefnu sinni, að efla, styðja og styrkja samstöðu með ,,vestrænum“ þjóðum, hvar sem þær eru og hverjar sem þær eru og þó.
Ísland er vestar en mörg önnur lönd, svo dæmi sé tekið og Bandaríkin og Kanada enn vestar en Ísland, en öll eru þessi lönd austar en Kína, Rússland, Kóreuríkin og reyndar öll Asíuríkin og þó þau síðartöldu séu ,,vestar“ og því ,,vestrænni“ stendur ekki til, svo vitað sé, að bjóða þeim í félagsskapinn.
Við lifum á hnetti, þar sem sumir telja sig vestrænni en aðra en hvað það raunverulega þýðir er teygjanlegt og óljóst, nema að því leyti til að hinir ,,vestrænu“ virðast telja sig yfir hina óvestrænu hafna, eru sífellt hræddir og telja sig þurfa að standa saman um hina ,,vestrænu samvinnu“.
Eru sem sagt fyrirmyndarfólk í fyrirmyndarveröld í fyrirmyndarlöndum og óttast hin fyrirmyndarsnauðu, ef ekki fyrirmyndarlausu!
Hvers vegna allir vilja ekki vera fyrirmyndarfólk í fyrirmyndarveröld fyrirmyndarfólksins fáum við líkast til að vita, bara ef til þess fást nægir peningar úr vösum hinna venjulegu sem hugsa ekki nógu mikið um að vera til fyrirmyndar.
Hvert allar þessar fyrirmyndir eru sóttar liggur fyrir, því þær eru sóttar í vestur til fyrirmyndarríkjanna sem þar eru, en hvort vestrinu lýkur við vesturströnd Bandaríkjanna og Kanada er ekki alveg ljóst, en við vitum um eyjar þar fyrir vestan, sem ,,vestrænar“ eru, þó austrænar séu, eða þannig!
Jörðin er kúla eins og fyrr sagði og Sólin kemur upp í austri – hinum vestrænu til baga – og sest í vestri sem er enn verra, svo við leggjumst bara á koddann og látum varðbergingum eftir að bergja á drykkjum sínum, dreyma drauma sína og finna endanlega út hvar vestrið byrji og hvar austrið taki við og vonum að lausnin verði fundin áður en allt fer norður og niður, þ.e.a.s. í suður!

Færðu inn athugasemd