
Eins og við sáum fyrir skömmu þá var kosin ný stjórn Bændasamtakanna og í henni sitja fulltrúar sauðfjárbænda, kúabænda, garðyrkjubænda og svínabænda. Þriðji varamaður er kjúklingabóndi. Hvenær sá fulltrúi er kallaður til vitum við ekki, en ljóst er að þriðji varamaður í stjórn er frá stærstu kjötframleiðslugreininni.

Á myndinni hér að ofan sjáum við skiptinguna á milli kjöttegunda.

Góðu tíðindin eru, að afkoma SS hefur aldrei verið betri og ef rýnt er í textann sést að framleiðslan er fjölbreytt.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði fagna breytingunum sem gerðar voru á dögunum; breytingar sem fela það í sér, að hægt er að sameina fyrirtæki á markaði og minnka samkeppni þeirra á milli.

Við sjáum líka að áhöld eru um hvort umrædd breyting á búvörulögum fór rétta leið í gegnum Alþingi.

Þá sjáum við líka að lög um sauðfjárveikivarnir þvælast ekki fyrir sumum sauðfjárbændum sem einfaldlega sækja sitt fé ef þeim sýnist svo, hafi svo illa tekist til að það hefur farið yfir sauðfjárveikivarnarlínur.

Í pylsuendanum leynist svo frétt af því að til umræðu sé að færa Markarfljót, en það mun ekki renna alveg á réttum stað að mati þeirra sem ráðast vilja í fljótsflutningana.
Og vegna þess að sandurinn berst til vesturs, þá vilja menn færa fljótið til austurs, því þá getur sandurinn borist til vesturs og í höfnina, en er dálítið lengur á leiðinni.
Fram hefur komið áður að hægt er að nota sandinn til sementsgerðar ef hann er fluttur til Þorlákshafnar. Við ætlum samt ekki að mæla með því að ósinn verði fluttur þangað!

Færðu inn athugasemd