
Það er sem bylting hafi orðið hjá Bændasamtökum Íslands, en hvort hægt sé að tala um hallarbyltingu í því sambandi er ekki víst, að minnsta kosti er ekki svo í bókstaflegum skilningi þess orðs.
Bændahöllin er ekki lengur til sem slík, hefur verið tekin undir skólahúsnæði og því er ekki hægt að gera byltingu af því tagi.
En það er hægt að gera ýmislegt samt og það var gert og tíminn mun leiða í ljós, hvort um var að ræða afturhvarf til fortíðar eða eitthvað annað.
Það sem við flest eigum sameiginlegt, er að við höfum grænmeti af einhverju tagi með máltíðinni sem við borðum, hvort heldur um er að ræða kjöt af einhverju tagi eða eitthvað annað s.s. fiskmeti.
Það fór því vel á því að formaður Bændasamtakanna kæmi úr hópi garðyrkjubænda, kæmi úr röðum þeirra sem yrkja jörðina og framleiða það sem notað er til meðlætis með hinum ýmsu kjöttegundum sem framleiddar eru af bændum.
Líklegt er að ekki hafi allir litið svo á, að gott gæti verið að formaður Bændasamtakanna væri sameiningartákn með þessum hætti og því fór sem fór en fleira kom til.
Kosningar í þessum heildarsamtökum bænda fara fram með þeim hætti, sem um sé að ræða eitthvað allt annað en heildarsamtök framleiðenda á íslenskum landbúnaðarafurðum.
Kjöttegundir eru nokkrar og misjafnt hve þær eru mannaflsfrekar til framleiðslu.
Það er ekki tekið tillit til þess þegar kosið er til formanns og til stjórnar í samtökunum og því er það, að sú skrýtna staða er komin upp, enn einu sinni, að kjötgreinin sem mest er neytt af á markaðnum, á engan fulltrúa í stjórn Bændasamtakanna.
Á vef Bændablaðsins sjáum við eftirfarandi:
,,Þau sem hlutu kjör voru Axel Sæland, garðyrkjubóndi á Espiflöt; Herdís Magna Gunnarsdóttir, kúabóndi á Egilsstöðum; Petrína Þórunn Jónsdóttir, svínabóndi í Laxárdal; Reynir Þór Jónsson, kúabóndi á Hurðarbaki; Sigurbjörg Ottesen, kúabóndi á Hjarðarfelli; og Eyjólfur Ingvi Bjarnarson, sauðfjárbóndi í Ásgarði.

Kosið var sérstaklega til varastjórnar og raðast varamenn eftir fjölda atkvæða. Fyrsti varamaður er Steinþór Logi Arnarsson, sauðfjárbóndi í Stórholti. Á eftir honum koma Ásta Arnbjörg Pétursdóttir, eggjabóndi á Hranastöðum; Eydís Rós Eyglóardóttir, kjúklingabóndi á Vatnsenda; Jón Helgi Helgason, kartöflubóndi á Þórustöðum; og Björn Ólafsson, sauðfjárbóndi á Kríthóli.
Áður hafði Trausti Hjálmarsson, sauðfjárbóndi í Austurhlíð, verið kosinn sem formaður í almennri kosningu meðal allra félaga Bændasamtaka Íslands. Á Búnaðarþingi tók hann við embættinu af Gunnari Þorgeirssyni, garðyrkjubónda í Ártanga, sem hefur verið formaður síðastliðin fjögur ár.“
Í stjórninni sitja einn garðyrkjubóndi, þrír kúabændur, einn svínabóndi og tveir sauðfjárbændur, en þeir síðast töldu hljóta að teljast tveir, því áður hafði verið kosinn formaður samtakanna sem rækilega er titlaður sauðfjárbóndi.
Vegna furðulegs kosningafyrirkomulags eru því í stjórn samtakanna tveir fulltrúar sauðfjárbænda, en það er falið með þeim hætti að sameiningartáknið formaðurinn, er kosinn sérstakri kosningu þar sem ekkert tillit er tekið til hlutdeildar á matvælamarkaði. Þess í stað er miðað við fjölda þeirra bænda sem atkvæði greiða!
Það er ekki tekið tillit til framleiðslumagns og/eða hlutdeildar á markaði, þegar kosið er til formanns eða í stjórn.
Þess í stað er kosið eftir því hve margir framleiðendurnir eru og engu máli skiptir hvað eftir þá liggur í afurðum!
Vegna þessa fyrirkomulags getur sú staða auðveldlega komið upp að síður og jafnvel ekki, sé gætt hagsmuna þeirra sem mestra hagsmuna hafa af því að vera í samtökunum.
Það fór vel á því að kjósa garðyrkjubónda til formennsku á sínum tíma og var sem ágætur millileikur, þar til fyrirkomulaginu yrði breytt til nútímahorfs.
Taflið var ekki teflt til enda og skákin var ekki einu sinni sett í bið!
Þess í stað var tekin ákvörðun um að hverfa aftur til fyrra horfs, þar sem ekkert tillit er tekið til þess hvað stendur að baki.
Önnur hagsmunasamtök hafa leyst þetta með sóma og t.d. gert það þannig að atkvæðavægi fari eftir veltu.
Hjá Bændasamtökunum er stefnan sú að hafa allt eins og það hefur verið, taka ekki tillit til breytinga, láta tímann standa í stað og sjá til, hvort það geti ekki bara blessast einn ganginn enn.
Við sjáum svo þegar frá líður hvernig þetta blessast hjá þessum fortíðarselskap.
Það má hverjum manni vera ljóst, að nýkjörin stjórn þarf að vanda sig í verkum sínum, ef hún á að rísa undir trausti, eða væri ef til vill réttara að orða það svo, að hún þurfi að vinna sér inn traust þeirra sem ekki eiga fulltrúa í stjórn.
Þeirra sem þrátt fyrir að vera með mesta hlutdeild á kjötmarkaði eiga enga fulltrúa ístjórn samtakanna, svo aðeins eitt dæmi sé tekið.
Ekki má heldur geyma því að greinarnar sem flesta fulltrúa eiga í stjórn eru líka þær greinar sem að hluta eru reknar fyrir almannafé sem tekið er úr ríkissjóði í gegnum búvörusamninga.
Svarið við spurningunni sem sett er fram í fyrirsögn er nei, það var engin hallarbylting gerð, nema þá í þeim skilningi að snúið var við á miðri leið og farið aftur til fortíðar.

Færðu inn athugasemd