Kastljósi varpað á kaup og sölu

Umræðan sem tekin var um söluna á TM, gleymist seint þeim sem horfðu og hlustuðu á Kastljós Sjónvarpsins þann 19/4 sl.

Þær sem tókust á, voru Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar og fjármálaráðherra ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og skemmst er frá því að segja að fjármálaráðherrann hafði ekki erindi sem erfiði í þeim orðaskiptum. 

Við vitum, eftir að hafa hlustað á þáttinn, að ráðherranum ,,þykir“ eitt og annað varðandi bankamálin, hefur ekki stjórn á því sem er að gerast, virðist ekki hafa verið upplýst og er því, nánast vorkunn að vera ekki almennilega inn í málunum. 

Við vitum líka, að Kvika er banki sem er ekki í ríkiseigu og TM ekki heldur. Einnig vitum við að til stendur að selja Landsbankann en það mál virðist hafa gleymst hjá ríkisstjórninni, þar til nýlega.

Við vitum líka að kerfið er þannig:

Að til er banki sem heitir Landsbanki, yfir honum er bankaráð, sem ráðherrann virðist ekki mega ræða málin við, vegna þess að búið var til millistykki milli ríkisstjórnar og banka sem heitir Bankasýsla og að svo virðist vera sem sýslan hafi ekki komið sér að því, að fá sér kaffispjall með ráðherranum í þeim tilgangi að upplýsa hann um það sem verið er að sýsla. 

TM er til sölu og komi nú einhver annar fram og bjóði betur en Landsbankinn, þá selst TM og ,,banki allra landsmanna“ situr eftir með sárt ennið, ef svo má segja um stofnun. 

Miðað við það sem fram kom, má setja spurningarmerki við hvort þjóðin eigi bankann, eða hvort það séu ,,vinirnir á bak við tjöldin“. Svo mikið er víst að ráðherrann virðist ekki vilja að verðmæti bankans sé aukið, a.m.k. ekki með þeim hætti, sem hér er lagt upp með.

Svo er að sjá sem það sé þjóðin sem missi góðan bita, hugsanlega í valda ,,vildarvini“ og því er eðlilegt að spurt sé, hvort ergelsi Sjálfstæðismanna stafi af því að einhverjir vel valdir og innmúraðir, séu að missa af einhverju? 

Verði Landsbankinn af kaupunum fyrir tilstuðlan Sjálfstæðismanna í ríkisstjórninni og vitanlega Framsóknarflokksins og Vinstri grænna líka, þá tapar þjóðin. 

Sitji ríkisstjórnin áfram og haldi uppteknum sið og ausi fjármunum þjóðarinnar út og suður, líkt og hér virðist vera á ferðinni og eins og gert var varðandi kjarasamningana, flandur með flugvélarfarm af fólki til miðausturlanda, stríðsrekstur og tafapólitík gagnvart virkjanaáformum o.fl., þá tapar þjóðin. 

Við lok þessarar umfjöllunar er rétt að skjóta inn því sem Kristrún Frostadóttir sagði um málið í viðtali við Morgunblaðið.

Kristrún lýsir í niðurlagi furðu sinni á málinu og telur það vera til vitnis um ,,ákveðið stjórnleysi í fjármálaráðuneytinu.

Það er í rauninni það sama og kom fram í máli hennar í Kastljósþættinum, þar sem hún tók fjármálaráðherrann nánast á kné sér.

Áður hefur formaður Samfylkingarinnr m.a. sagt í öðru viðtali það sem sést hér að ofan. Þar segir hann m.a. að fjármálaráherra ,,stilli ríkisstjórninni upp við vegg og að gjörningurinn gangi ekki upp nema Landsbankinn verði í heild sinni seldur“.

Það blasir við, að best er, að boðað verði til kosninga til Alþingis í von um að hægt verði að hreinsa borðið að þeim loknum.

Og standa þannig að þeim, að Borgarnesævintýrið endurtaki sig ekki! 

_ _ _

Varla er hægt að slá botn í þetta nema minnast á það klúður sem virðist vera í uppsiglingu varðandi komandi kosningar til embættis forseta.  

,,Gleymst“ hefur að uppfæra regluverkið í takt við fjölgun þjóðarinnar og nú er svo komið, að frambjóðendur virðast verða fleiri en nokkru sinni, enda lítil fyrirstaða til að afla tilskilins meðmælendafjölda í nútímasamfélagi miðað við það sem áður var. 

Kosturinn við fyrirkomulagið er, að í kosningunum verður úr nógu að velja og má því gera ráð fyrir að á kjörstað verði flestir ánægðir.

Sem líklega snýst síðan við, að lokinni talningu atkvæða.

Færðu inn athugasemd