Þegar enn eitt eldgosið er að fjara út á Reykjanesi, fer af stað annað og það er kona nokkur í ríkisstjórninni sem því veldur, og við getum lesið um það í miðlum dagsins.
Á Rúv sjáum við, að mikið er í húfi að mati Sjálfstæðismanna og hinn ábyrgðarfulli fjármálaráðherra þjóðarinnar stígur fram í þekktu gerfi.

Ráðherrann – sem áður var utanríkisráðherra – vill ekki að Kvika selji og Landsbankinn kaupi og ,,óskar eftir skýringum“ o.s.frv.

Á mbl.is er ekki gert mikið úr málinu en sagt, að ,,fjármálaráðherra segist ekki munu samþykkja kaupin“ og er svo að skilja sem málið sé lítið gos, sem senn muni lognast útaf.
Visir.is er líka með frásögn af málinu og birtir frekar skuggalega vinstri(!)- vangamynd af ráðherranum ráðríka.

Hvað við eigum að lesa út úr því er ekki alveg ljóst en við þekkjum dálítið til starfa hennar frá því þegar hún var í utanríkisráðuneytinu og vitum því að hún getur tekið ákvarðanir sem byggðar eru á tilfinningum, sem settar eru framar rökhyggju.
Heimildin tekur þann pól á þetta pólitíska upphlaup, að fara yfir málið og skýra í grein undir fyrirsögninni: ,,Segist ekki samþykkja kaup Landsbankans á TM nema bankinn verði einkavæddur“.
Það liggur sem sé fiskur undir steini og í greininni kemur m.a. fram:
..Þótt íslenska ríkið eigi Landsbankann þá er í gildi fyrirkomulag sem á að tryggja armslengd milli ráðherra og bankans þegar kemur að rekstrarákvörðunum hans. Það fyrirkomulag byggir á lögum um Bankasýslu ríkisins frá árinu 2009. Í þeim segir að Bankasýslan, stofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, fari með „eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma, og leggur þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimildar í fjárlögum.““
Samkvæmt þessu þarf fjármálaráðherrann að stíga varlega til jarðar í málinu, fara gætilega, en getur vitanlega haft hverja þá skoðun sem hann vill.
Hvort tjáning á þeirri skoðun verður eitthvað annað og meira en stormur í vatnsglasi mun síðan tíminn leiða í ljós.

Færðu inn athugasemd