Túnbleðillinn, aðlögunin og hagnaðurinn

Bóndi nokkur í Norðurárdal stendur frammi fyrir sérkennilegu máli og sé málið skoðað, þ.e. fréttin lesin, kemur skýringin í ljós.

Bóndinn á tún og túnið heitir nafni sem endar á hólmi og þar með finna hinir opinberu það út, að um sé að ræða eyju og hana skuli gera upptæka og af þessu ráðum við að betra sé að vanda sig við nafngiftir!

Ritara dettur í hug dæmi úr eigin nágrenni sem kölluð eru hólmar, annað í Þjórsá en hitt í sunnlensku vatni, en þar gerðist það fyrir nokkrum árum að hólmi sem í vatninu var hvarf!

Ætli skýringin geti verið sú að ,,hinir opinberu“ hafi laumast til að hrifsa hann til sín í skjóli nætur?

Hólmi þessi var mikil prýði, nú er hann horfinn og eflaust kominn á safn hjá hinu opinbera, þar sem hinir opinberu, geta virt hann opinberlega fyrir sér og gert sér vonir um að álftin verpi á bleðlinum og ungi út!

Landsvirkjun er þjóðþrifafyrirtæki hvað sem vinstrigræningjum allra stjórnmálaflokka finnst annars um fyrirtækið og færir okkur orku en einnig fjármuni í ríkiskassann tóma.

Við skulum því hlusta sem minnst á þá sem niður naga og allt sjá neikvætt hvert sem þeir líta með sínum sérkennilegu gleraugum.

Þjóðinni fjölgar og þó ekki sé nema þess vegna, þurfum við uppbyggingu innviða.

Við treystum á að ,,innviðaráðherrann“ sjái það, skilji og viti.

Ef einhverjir eru með honum í stjórninni sem ekki skilja þetta, þarf að slíta samstarfinu, mynda nýtt eða boða til kosninga.

Færðu inn athugasemd