Sjómannaskólinn heimsóttur á Skrúfudegi

Tveir vinir sem báðir voru í fríi, fóru til Reykjavíkur til að líta við í Sjómannaskólanum á Skrúfudegi, degi sem haldinn er árlega til kynningar á skólastarfinu.

Á ýmsu gengur og framtíð skólans er í óvissu vegna löngunar ráðamanna þjóðarinnar til að úthýsa menntun skipsstjórnarmanna, vélstjóra og vélfræðinga úr skólahúsnæðinu.

Húsnæði sem fátæk þjóð byggði af metnaði til  nota fyrir menntun þeirra sem starfa í vél og í brú skipa þjóðarinnar.

Eins og margir munu vita, hafa núverandi og jafnvel fyrri ráðamenn þeirrar sömu þjóðar, haft um nokkurra ára skeið löngun til að losna við menntun sjómannastéttarinnar úr höfuðborginni, úr Sjómannaskólanum og að koma henni ,eitthvað annað’.

Ekki er samt víst að áhuginn til að koma menntun sjómanna úr höfuðborginni hafi alltaf verið sá, að koma skólunum sem í Sjómannaskólanum eru, á brott úr borginni.

Því á sínum tíma var hugmyndin sú, að það yrði eingöngu Vélskólinn sem yrði fjarlægður af svæðinu.

Í því hugarfóstri fólst, að koma Vélskólanum fyrir í aflögðu og lákúrulegu verslunarhúsnæði uppi á Höfða.

Málið gekk svo langt,  að gerðar voru teikningar af innréttingu húsnæðisins og þar með væntanlegu fyrirkomulagi kennslunnar. 

Það skyldi vera þannig, að kennslustofurnar fylgdu útveggjum byggingarinnar umhverfis vélasalinn, sem yrði holað niður í miðsvæði hennar.

Eitthvað hefur þetta fyrirkomulag allt saman  farið öfugt í menn, því hugmyndin fjaraði út og hefur lítið af henni fréttst um nokkurt skeið.

Hvað gera átti varðandi menntun skipstjórnarmanna í brú, man ritari ekki en vel getur verið þeir hafi einfaldlega ekki verið teknir með í dæmið og að ætlunin hafi verið að skipin myndu einfaldlega stjórna sér sjálf.

En nú eru uppi nýjir draumar, sem ganga út á, að tæknimenntunin verði flutt eitthvað annað og er það þegar komið til framkvæmda og hluti hennar kominn til Hafnarfjarðar.

Líklega verður bætt við á námskrá áfanga sem gæti t.d. heitið ferðafimi eða færni, til að nýta þjálfunina sem felst í því að þvæla nemendum fram og aftur á milli sveitarfélaga meðan þeir stunda nám sitt.

Eðlilegt er að spyrja hvað gera skuli við Sjómannaskólahúsið þegar búið sé að hrekja menntun sjómannastéttarinnar þaðan og svarið liggur fyrir.

Ætlunin mun vera að nýta húsnæðið fyrir dómstóla, sem er eins og flestir vita, einn hinna blómstrandi atvinnuvega, sem nú skulu taka við og þenja sig yfir og út um þjóðfélagið. 

Það er að segja, ef hugarfóstrin verða að veruleika.

Lítil sem engin ástæða er til að efast um að svo verði, svo grunnt sem þær eru hugsaðar.

Þar er atvinnuvegurinn sem ráðamenn þjóðarinnar horfa til, sem vonarstjörnu framtíðarinnar.

Fyrir slíkum atvinnuvegi og atvinnutækifærum, þarf að láta flest annað víkja.

Því framtíð íslenskrar þjóðar felst í sem flestum dómum, pappírum, þrasi og ósátt.

Hafi menn ekki vitað það fyrr, þá vita þeir það nú!

Færðu inn athugasemd