
Skrúfudagurinn er á morgun, laugardaginn 16/3/2024.
Dagurinn hefur verið haldinn árlega og er kynning á skólanum og því sem hann hefur upp á að bjóða.
Okkur sem til þekkjum þykir sem skuggi hvíli yfir, því ráðamenn þjóðarinnar virðast hafa komist að þvi, að Vélskólinn og Stýrimannaskólinn líka, séu best geymdir, einhverstaðar annarsstaðar, en í húsinu sem byggt var af þjóðinni fyrir menntun sjómanna á sínum tíma.

Nú ganga hugmyndir ráðamanna út á að leggja Sjómannaskólann af, í því formi sem hann hefur verið um áratugi og koma honum eitthvað annað og helst burt úr höfuðborginni og á því hefur gengið í nokkur ár.
Menntun sjómanna skal fara fram utan Reykjavíkur og eins og geta mátti nærri, er það vegna mikillar þarfar fyrir húsnæði fyrir dómstóla, sem er hinn vaxandi atvinnuvegur sem sífellt þarf meira pláss fyrir sína starfsemi og því dugar ekkert minna en Sjómannaskólahúsið undir starfsemina.
Allt breytist sem sagt og nú eru það dómstólarnir sem eru aðalatvinnuvegur hinnar íslensku þjóðar og því skal menntun sjómanna fara fram einhverstaðar annarstaðar en í höfuðborginni.
Eflaust nær þetta fram að ganga, því eins og allir vita sem fylgst hafa með þróun samfélagsins, þá er miklu þarfara, að búa vel að þeim sem dæma menn til refsingar, en þeim sem sjá um að skipin geti siglt um höfin, aflandi verðmæta sem sigla þarf með til annarra landa.
Skipa sem flytja afurðir þjóðarinnnar á erlenda markaði og sem koma síðan þaðan, færandi varninginn heim.
Það þarf menntaða menn til að skip geti siglt um höfin og menntun þeirra hefur m.a. farið fram í húsnæði Sjómannaskólans og tengdum byggingum.
Vegna þess, að hver fer nú að verða síðastur að komast á Skrúfudag í Sjómannskólanum og tengdum mannvirkjum, er rétt að hvetja sem flesta til að mæta og njóta stundarinnar, því það er ekki alveg víst að þær verði fleiri slíkar í framtíðinni.
Nema náttúrulega fyrir þau sem þrá að njóta þess að fylgjast með dómsstörfum, því víst mun vera, að þörfina fyrir þau störf þrýtur seint.
Það er rætt um að byggja ,,þjóðarhöll“.
Ætli hún verði ekki tekin undir dómstóla, þegar húsnæði Sjómannaskólans dugar ekki lengur til?

Færðu inn athugasemd