
Í viðtali Helga Seljan við Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingarinnar, er víða komið við.
Svo er að sjá sem kominn sé fram á svið stjórnmálanna stjórnmálamaður nýrrar gerðar.
Stjórnmálamaður sem vill takast á við málin samkvæmt rökum, frekar en gaspri og sleggjudómum, vill yfirvegun og faglegt mat, frekar en órökstutt hugsjónaflóð.
Það er góð tilbreyting, sem kominn var tími til að kæmi til sögunnar.
Þar með er ekki sagt að hugsjónir skorti, heldur að reynt verði að vinna að því að ná markmiðunum sem að er stefnt á yfirvegaðan, rökstuddan og vandaðan hátt.
Ná því að hugsjónirnar rætist með raunhæfum aðferðum.
Þetta er góð tilbreyting fyrir okkur sem fylgst höfum með stjórnmálum þjóðar okkar um áratugabil og fyllst sífellt meira vonleysi eftir því sem fram hefur liðið.
Að stjórnmálamenn hafi markmið og stefnu er gott, en það er líka bæði gott og nauðsynlegt að þeir segi það skýrt, að stefna sé ekki nóg og markmiðin ekki heldur, ef ekki er jafnframt bent á hvernig markmiðunum skuli ná.
Að það sé vegið og metið hvað sé hægt að gera og hvernig skuli ná því fram sem mögulegt er að gera.
Að á svið stjórnmálanna sé komin manneskja, sem hugsar fyrst og gerir svo, er fagnaðarefni.

Færðu inn athugasemd