Sumt er þannig að reynt er að fela það og víst er, að ef eitthvað þolir ekki dagsljósið, þá getur verið gott að koma því fyrir á afviknum stað.
Þannig er það með fangelsi sem verndarar okkar og sérlegir vinir halda úti á Kúbu, landinu sem þeir þola ekki.
Þegar ekki er lengur hægt að mergsjúga það vegna þess hve lítill mergur er eftir, þá er málum komið þannig fyrir, að þjóðin hafi það sem verst í efnahagslegu tilliti.
Hefur það þó ekki verr en það í tæknilegu tilliti eða huglægu, að hún getur sent dularfulla strauma til bandarískra sendifulltrúa sem bera sig illa og vita ekki sitt rjúkandi ráð!

Þarna eru geymd óhreinu börnin hennar Evu, það er að segja USA og reynt að láta sem allra minnst af þeim fréttast.
En og svo undarlegt sem það er, þá finnast þess dæmi að menn hafi losnað og sloppið úr Guantanamóinu inn í heiminn að nýju!
Kúbverjar luma á ýmsu og sumt er allt að því yfirnáttúrulegt eins og við munum, sem fylgdumst með sendiráðsmálinu ógurlega fyrrnefnda.
Í því voðalega ástandi sem þá varð til, gerðist það að bandarískir sendifulltrúar urðu fyrir yfirnáttúrulegum ,,straumum“ af allt að því ,,að handan“ tagi, sem þeir töldu að Kúbanir hefðu af illsku sinni töfrað fram.
Galdrarnir voru slíkir, að þegar kanna átti málið á ,,vísindalegan“ hátt, þá soguðu Kúbumenn straumana til sín og hefur ekkert síðan til þeirra spurst.

Dæmin um að menn sem komið hefur verið fyrir í hinum virðulegu fangabúðum segi síðan sögu sína eru ekki mörg en þó að minnsta kosti eitt, svo sem sjá má og frá er sagt í blaði allra landsmanna á eyju nokkurri í norður Atlantshafi.
Þar segir frá manni nokkrum sem heitir Mohamedou Ould Slahi, sem eflaust hefur ekki búist við, að hann ætti eftir að berast til hrjóstrugrar og uppblásinnar eyju, sem einhverra hluta vegna heitir því kuldalega nafni Ísland og þekkir hann þó vel til a.m.k. einnar eyju þ.e.a.s. Kúbu.
Mohamedou fæddist í Máritaníu 1970 en 2001 var hann tekinnn höndum af yfirvöldum þar í landi að beiðni bandarískra yfirvalda og síðan stungið í fangelsi í Jórdaníu.
Þaðan var hann síðan fluttur til bandarískra fangabúða sem komið er fyrir á Kúbu, væntanlega í þeirri von, að sem allra minnst til hans fréttist.
En svo bregðast krosstré sem aðrir raftar og það hefur gerst, að maðurinn hefur sloppið úr betrunarvistinni bandarísku og valsar um heiminn og segir sögu sína.
Þau finnast nokkur löndin sem eru höll undir Bandaríkin, fylgispök og létt í taumi og gera það sem þeim er sagt og nú vitum við að þau eru a.m.k. tvö, því við munum eftir Assange, sem er geymdur í breskri dýflissu, eflaust í þeirri von að sá dagur komi að hann vakni ekki að morgni.
Hann sagði nefnilega sögu sem ekki mátti segja, sögu sem ekki þoldi dagsljósið og sem af þeirri ástæðu átti að vera ósögð.
Sagan sú, gerðist m.a. á ábyrgð hinnar íslensku þjóðar, því ráðamenn hennar lýstu því yfir af visku sinni og víðsýni, að örþjóðin skyldi vera í hópi ,,hinna viljugu þjóða“ og taka þannig í orði þátt í árásarstyrjöld á land sem er svo langt í burtu, að það er allt í lagi og bara gott, að sprengja það í tætlur.
Þjóðhöfðingi þess var síðan hengdur með eftirminnilegum hætti sem varð minnistæður, ekki síst fyrir það að böðlarnir kunnu ekki að reikna eða kunnu ekki á vigt, eða eitthvað þaðan af verra.
Hann mun hafa náð því að spyrja böðla sína hvort þeim þætti sómi að því að fara svona með þjóðhöfðingja sinn?
Svarið vitum við ekki, en höfuð slitnaði frá búk og í tvennu lagi fór hann í gröf sína, ef hann fór þá í gröf.
Ástæðan fyrir þessu framtaki ,,hinna viljugu“ var að því hafði verið skrökvað upp, að Írakar lumuðu á vopnum þeirrar gerðar sem ekki mætti eiga.
En aftur að efninu, því nú hefur það sem sagt gerst, að sloppinn er frá Guantanamo maður sem segir sögu, ef ekki sögur og hefur rekið til Íslands og frá þessu er sagt í miðli sem fram til þessa hefur ekki verið talinn hallur undir bandarísk sjónarmið.
Vonandi verður sagt frá því hvað hann segir og líka er vonandi að hann verði ekki rekinn úr landi eins og rússneski sendiherrannn sem fór í fíngerðar taugar utanríkisráðherra sem breyttist í fjármálaráðherra.

Færðu inn athugasemd