Dýralíf og karlar tveir…

Hann er makindalegur þessi ,,vinur” okkar þar sem hann liggur og lætur sig dreyma og gott væri nú, ef það sama mætti segja um það sem er að gerast í mannheimum að hægt væri að láta sig dreyma um heim þar sem friður og ró ríkti í samskiptum manna og þjóða á milli. 

Svo er því miður ekki og svo er komið að jafnvel eldgamlir karlar ganga af göflunum og fara nærri því úr kjálkaliðunum af æsingi s.s. sjá má hér að neðan. 

Myndirnar eru af frásögn ruv.is af ræðu sem meistari Biden mun hafa flutt í tilefni þess að til stendur að kjósa forseta í ,,guðs eigin landi”

Slóðin inn á frásögnina er: Gagnrýndi Trump og Pútín og hvatti til vopnahlés á Gaza – RÚV.is (ruv.is) og á henni er hægt að nálgast það sem sagt er af þessum merka(?) viðburði. 

Það eru tveir aldraðir karlar sem eiga sviðið, tveir vilja komast í framboð til forsetakosninga og sá þriðji mun vera forsætisráðherra í ríki sem búið var til í óðagoti eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk. 

Frásögnin á ruv.is er dálítið sérstök og því þótti þeim sem þetta ritar við hæfi að láta vélræna uppröðun skjáskotanna ráða för, en eins og áður sagði, má nálgast fréttina á slóðinni hér að ofan. 

Af þeim sem liggur á ísjakanum er það að segja, að lítil hætta er á því að hann fari úr kjálkaliðunum út af því sem er að gerast fyrir sunnan hann. Hann hefur aldrei náð þeim þroska að telja sig færari en aðra, nema þá til að næla sér í eitthvað til að éta þegar hann þarf. 

Karlarnir tveir eru í öðrum heimi. Heimi sem bjössi á ísjakanum getur ekki látið sig  dreyma um í sínum villtustu draumum og getur hann þó gengið á tveimur þegar sá gállinn er á honum. 

Við vonum í einlægni að ,,Eyjólfarnir” hressist og að birnir og húnar þeirra, ásamt mannanna börnum og öðru sem lifir á þessari Jörð, fái að lifa lífi sínu óáreitt. 

Við eigum allt undir því nú um stundir, að heimsbyggðinni verði ekki hrundið fram af kjarnorku- brúninni.  

Færðu inn athugasemd