Að taka upp stefnu

Það er ekki gott að búa til eitthvað úr engu.

Viðtal Heimildarinnr við Oddnýju Harðardóttur.

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar mun hafa rætt, m.a. stöðu útlendingamála í einhverjum þætti fyrir nokkrum dögum.

Vegna þess sem hún á að hafa sagt þar hefur orðið nokkur pólitískur nasablástur, einkum til hægri í samfélaginu og því jafnvel verið haldið fram, að Samfylkingin sé að taka upp stefnu Sjálfstæðisflokksins í málaflokknum.

Hvenær það gerðist og hvernig og auðvitað hvort, er hins vegar óljóst.

Það er dálítið snúið að búa til eitthvað úr engu og til Sjálfstæðisflokksins er útilokað að sækja stefnu í málaflokknum, nema að orðið stefna geti þýtt eitt í dag og annað á morgun og að allt fari einfaldlega eftir því hver á heldur o.s.frv.

Þegar einn vill þetta og annar hitt og menn komast ekki að sameiginlegri niðurstöðu, þá myndast engin stefna sem hægt er að kalla því nafni.

Utan frá séð, ganga hlutirnir þannig fyrir sig í Sjálfstæðisflokknum, að menn koma sé saman um ,,stefnu“, en síðan veldur einfaldlega hver á heldur, enda þarf líklega svo að vera, til að flokkurinn rísi undir nafni: að allri séu sjálfstæðir í sjálfstæðum flokki, sem síðan heitir Sjálfstæðisflokkur.

Hvað í nafninu felst vitum við síðan sára lítið um, en vitum þó að flokkurinn er gamall á íslenskan mælikvarða og lausleg skoðun leiðir í ljós að um er að ræða flokk, sem sækist eftir því að sitja í ríkisstjórn – það vilja allir flokkar – en hvað hann leggur síðan á borðið og hverju hann vill koma fram, er allt frekar óljóst og niðurstaðan er, að efst á blaði er gæsla hagsmuna vissra afla í samfélaginu.

Flokkurinn er sem sagt góður fyrir sinn hatt, það getur verið ágætt að eiga við hann samstarf, en ávallt þarf að hafa í huga hvaða hagsmunir eru í húfi og vissulega fer það saman við hag þjóðarinnar, að fyrirtækjunum vegni vel, svo aðeins eitt dæmi sé tekið.

Samfylkingin er dálítið óræð pólitísk gáta horfi menn einungis til nafnsins en þó liggur í orðinu að fólk hefur fylgt sér saman um eitthvað og í þessu tilfelli er um að ræða að stefna að einhverju í þjóðfélaginu.

Hópur fólks hefur komið sér saman um að koma saman í stjórnmálaflokki en hvert er markmiðið?

Áður fyrr var stefnt að sem jöfnustum kjörum og lífsskilyrðum fyrir alla og það var kallað jafnaðarstefna og það merkilega er að þrátt fyrir nær stöðugan klofning vinstri flokka, þá hefur tekist að jafna kjör fólks verulega frá því sem áður var.

Skilin milli vinstri og hægri eru ekki eins ljós nú og fyrr og til að skýra málin dugar ekki minna en að fá til þess lærða háskólaspekúlanta sem setja sig í virðulegar stellingar og kveða síðan upp úr með svo dæmi sé tekið, að Samfylkingin sé að nálgast eða taka upp stefnu Sjálfstæðisflokksins í útlendingamálum.

Þá vaknar spurningin um hver sú stefna sé, hvar hana sé að finna og hvernig hún birtist í framkvæmd?

Birtist hún ef til vill í því, að landið okkar sé nær galopið fyrir komu allra sem vilja og að þeir geti sest hér að og orðið gildir þjóðfélagsþegnar ef þeir vilja og ef þeim sýnist það vera góður kostur? Og jafnvel einnig, að þeir geti búið hér um sig til að stunda eitthvað vafasamt?

Ekki er rétt að ætla stjórnmálaflokkunum að stefna þeirra sé engin í málaflokknum en að því sögðu, þá er hún ekki föst í hendi, enda ekki einfalt að negla niður klárt og kvitt stefnu um það sem er jafn fjölbreytilegt og margslungið eins og mannskepnan.

Við viljum taka á móti fólki en okkur hlýtur að vera heimilt að gera til þess kröfur. Kröfur eins og til dæmis þær að það aðlagist þeim gildum sem í þjóðfélaginu eru, séu almennt heiðarlegir og eðlilegir borgarar, sem hægt sé að treysta og vitanlega viljum við líka gera þær sömu kröfur til þeirra sem fyrir eru.

Það hefur gengið alla vega að fá þetta dæmi til að ganga upp en að því viljum við flest stefna og það ætti að vera hafið yfir pólitískar flokkslínur.

Íslensk pólitík er skrýtin tík og það sama gildir víðar en á Íslandi, en að því sögðu eru einhverjir traustustu og bestu vinir bloggara hinar raunverulegu tíkur og bræður þeirra og það mun seint breytast!

Færðu inn athugasemd