Í Bændablaðinu sem kom út þann 22/2/2024 er margvíslegt efni. Þar er ótalmargt sem fjallað er um og t.d. er þar sagt frá því, að hið meinta frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur, sé ekki allt þar sem það er séð og kemur það ekki á óvart.
Skoðun leiðir nefnilega í ljós, að þrátt fyrir að tollar hafi verið felldir niður, þá er ekki allt sem sýnist, því íslenskir stjórnmálamenn, hafa látið glepjast af fagurgala og bulli. Hinn möguleikinn er vissulega fyrir hendi, að þeir hafi vitað betur en tilgangurinn hafi helgað meðalið.

Varðandi tollamálin sannast nú sem endranær, að ekkert er nýtt undir sólinni og Erna Bjarnadóttir hagfræðingur fer yfir þau mál í aðsendri grein í blaðinu.
Þar kemur fram að ekki er allt sem sýnist og að það er til eitthvað sem heitir ,,bókun þrjú” sem gilda mun um unnar vörur sem innihalda hráefni úr landbúnaði, s.s. kjöt mjólk og egg.
Erna byrjar grein sína með því að minna á að:
Árið 1993 var lokið við gerð samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og hann lögfestur frá Alþingi sem lög nr. 2/1993. Þau tóku gildi þann 1. janúar 1994. Með samningnum komst m.a. á fríverslun með fjölmargar vörur aðila í milli. Í 8. gr. laganna eru lögfestar grundvallarreglur um frjálsa vöruflutninga. Þar segir að ákvæði samningsins taki m.a. til framleiðsluvara sem tilgreindar eru í bókun 3, í samræmi við það sérstaka fyrirkomulag sem þar er greint frá.
Síðan segir um svokallaða bókun þrjú:
,, Árið 2015 voru viðskiptakjör með margar af þeim vörum sem undir hann falla endurskoðuð. Í frétt frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í september 2015 er eftirfarandi haft eftir þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni: „Það er mjög ánægjulegt að hafa náð samningum um gagnkvæma niðurfellingu tolla sem mun hafa mjög jákvæð áhrif fyrir neytendur og mikil sóknarfæri til aukins útflutnings.“ (Leturbreyting er höfundar þessa pistils)
Ráðherrann var ánægður með unnið verk og þau sem stóðu í slagnum gleyma seint því sem við var að eiga.
Erna minnir enn fremur á:
Umræddir samningar fólu m.a. í sér að Ísland felldi niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkaði tolla á yfir 20 öðrum.
Og áfram:
„Almennt gerði ESB slíkt hið sama. Niðurstaðan felur í sér að allir tollar á unnar landbúnaðarvörur eru felldir niður nema á jógúrt. Sem dæmi munu tollar falla niður á súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum o.fl. Auk þessa eru tollar felldir niður eða lækkaðir á óunnum landbúnaðarvörum eins og t.d. villibráð, frönskum kartöflum, útiræktuðu grænmeti o.fl.“
En hvers vegna var verið að þessu?
Við sem í slagnum stóðum munum, þó nokkuð sé um liðið, að tilgangurinn var m.a. að liðka til fyrir sölu á kindakjöti til ESB- landa.
Til þess að ná því fram, víluðu menn ekki fyrir sér að fórna á því altari, búgreinum eins og alifuglarækt, nautgriparækt og svínarækt.
Það var ekki hikað við að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og í framhaldinu var síðan komið upp sölubatteríi sem fékk það virðulega nafn Icelandic Lamb og sem enn starfar.
Grein Ernu er ítarlegri og rétt er að benda þeim sem áhuga hafa, að kynna sér hana í Bændablaðinu.
Til að létta þetta aðeins í lokin má benda á að í smáauglýsingum í blaðinu má finna eftirfarandi:
,,Ertu orðinn jafnleiður eins og ég á stefnumótasíðum? Myndarleg kona á fimmtugsaldri óskar eftir bangsa, 185 cm eða hærri. Verður að vera indæll, ógiftur 40+. Helst á höfuðborgarsvæðinu eða þar í grennd. Áhugasamir sendi póst á…
Bangsinn þarf sem sagt að vera nokkuð stór, laus og liðugur, kominn yfir fertugt og helst að búa í grennd við, eða á höfuðborgarsvæðinu.
Hvað áhugasamir skulu hafa í huga!

Færðu inn athugasemd