Is og þys út af engu?

Svo er að sjá og heyra, sem Kristrún Frostadóttir hafi ýtt við sumum, er rætt var við hana um málefni útlendinga í íslensku þjóðfélagi, í þættinum Ein pæling.

Það sem formaður Samfylkingarinnar sagði um útlendingamálin í þættinum, má hlusta á hér.

Málefni flóttamanna eru viðkvæmt umræðuefni og því er það virðingarvert að formaður stjórnmáaflokks, vekji máls á því sem þarf að hafa í huga varðandi komu flóttamanna til landsins.

Vitanlega er það takmörkunum háð hve mörgum íslenskt þjóðfélag getur tekið við erlendis frá og í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga, hver staða fólksins sem er á flótta frá heimalandi sínu er.

Væntanlega eru það ekki margir sem flýja land sitt að ástæðulausu. Að baki ákvörðum um a leggja á flótta frá landi sínu og þjóð, liggja ríkar ástæður.

Það hefur komið upp sú staða, að Íslendingar hafa þurft að fara úr landi sínu til að leita sér að betri von um sæmilegt líf annarsstaðar.

Nægir þar að minna á ,,vesturfarana“ og þau sem fóru t.d. til Norðurlandanna fyrir nokkrum áratugum þegar kreppuástand var í þjóðfélaginu okkar.

Nú um stundir er mikið rót á fjölda fólks, Úkraínar eru á flótta, Palestínumenn sömuleiðis og fleiri mætti til telja, en um hvað snýst málið?

Kristrún hefur komið fram með skoðun um útlendingamál og hún bendir á að þessi nýi veruleiki sem við búum við kalli á nýja nálgun.

Sagt hefur verið frá því, að fjöldi innflytjenda af EES svæðinu hafi tvöfaldast á tíma núverandi ríkisstjórnar.

Kristrún bendir á, að kerfið sé ósjálfbært og vitanlega er það rétt. Flestir sjá að kerfið er sprungið, en það er ekki sama hvernig tekið verður á málinu.

Fullyrt hefur verið að um sé að ræða nýjan ,,tón“ frá því sem verið hefur hjá Samfylkingunni og sumir halda því fram að Kristrún hafi ekki skýrt mál sitt nógu vel, sem tæplega er hægt að segja að sé rétt.

Þjóð veit þá tveir vita og við vitum öll, að ekki er hægt að taka á móti ótakmörkuðum fjölda innflytjenda til landsins, þó ekki sé nema vegna þess að kerfi þjóðfélagsins þurfa að geta ráðið við og risið undir álaginu sem því fylgir.

Fólk þarf húsnæði, þjónustu, skólakerfi, heilbrigðisþjónustu o.fl. og fleira og við viljum væntalega flest, að þau sem flytjast til landsins, geti búið við mannsæmandi aðbúnað, kjör og þjónustu og til dæmis, að ekki sé nýðst á því, á vinnu og húsnæðismarkaði.

Niðurstaða þess sem þetta ritar er sú, að Kristrún Frostadóttir hafi komið af stað nauðsynlegri umræðu um viðkvæmt mál sem þarft er að leysa með sóma, en ekki með offorsi og vanhugsun.

Það hefur stundum verið gert, líkt og þegar heilu hótelin voru tekin á leigu til að geta komið fyrir fólki sem til landsins streymdi.

Fyrir nú utan það, að hliðrað var reglum um varnir gegn dýrasjúkdómum.

Niðurstaðan er, að það getur verið gott að fá fólk til landsins, en það þarf líka að standa að því með sóma og það virðist Kristrún Frostadóttir vilja gera og hún er ekki ein um þá skoðun.

Færðu inn athugasemd