Að þora og að þora ekki, er mál málanna þessa dagana og við verðum vitni að ýmsu skrautlegu eftir að formaður Samfylkingarinnar þorði.
Hér að verða sýnd nokkur dæmi, sem tekin eru úr miðlum dagsins.

Í stað þess að fagna málefnalegri umræðu um erfið mál er blásið í pólitískar glæður og reynt að þyrla upp ryki.
Þannig er íslensk pólitík, að hver höndin er upp á móti annarri og að vitlega og raunsæa umræðu, er reynt að grípa á lofti í þeirri von að hægt sé að senda hana sem bjúgverpil til baka.
Þannig er pólitíkin okkar, að það er meira virði að koma höggi á andstæðinginn en að ræða málin á yfirvegaðan hátt.
Hagur þjóðarinnar víkur ef hægt er að slá pólitískar keilur.
En eins og við sjáum á myndinni hér að ofan, þá er hugmyndin að skerpa á eftirlit með eftirliti og síðan þarf væntanlega að skerpa eftirlit með því!
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu er því haldið fram að ,,eldar logi” innan flokksins sem þorði að taka útlendingamálin til umræðu.
Engin ástæða er til að trúa slíku og síst af öllu þegar haft er í huga hvaðan fullyrðingin um hinn pólitíska eldsvoða kemur!

Vandinn hverfur ekki þó neitað sé að horfast í augu við hann, síður en svo, en við verðum hinsvegar vitni að frekar ómerkilegri umræðu. Umræðu sem snýst um það, að koma höggi á pólitískan andstæðing, í stað þess að fagna því að komið sé tækifæri til að ræða málin á skynsamlegum nótum, grípa orðin með það að markmiði, að nota þau til að finna lausn á máli sem flestir sjá að þarf að leysa.

Rétt er að geta þess að líklegra er en hitt, að dómsmálaráðherrann sem nú situr vilji ræða útlendingamálin á vitrænum nótum og því er það, að við reynum að leiða hjá okkur falskan, pólitískan lúðrablástur.
Dómsmálaráðherrann sem nú situr hefur sýnt að hún reynir sem hún getur að koma málum fram á veg og út úr þeirri blindgötu sem þau hafa verið í og því ber að fagna.
Að hún geti átt von á góðri leiðsögn á þeirri vegferð hlýtur frekar að vera gott en vont.

Færðu inn athugasemd