Vitlegast að hinkra og sjá hvað út úr þessu kemur, segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.
Klippa af vef Rúv:

Það hefur verið blásið upp að formaður Samfylkingarinnar hafi bent á, að rétt væri að skoða innflytjendamálin, taka til í regluverkinu og laga það sem laga þarf.
Ummælin hafa verið blásin upp af pólitískum andstæðingum, sem þó vita, að í raun er þetta rétt, en þeir þora líklega ekki að nefna það vegna fylgishrunsins sem á þeim hefur dunið. Stjórnmálamenn sem elta slíka strauma í stað þess að móta stefnu, eiga sér ekki mikla framtíð.
Hitt hefði eflaust ekki verið blásið minna upp, af pólitískum andstæðingum, ef Kristrún hefði haldið því fram í viðtali að engin þörf væri á að skoða málin og að allt væri gott eins og það er, að allt væri í besta lagi, í málaflokki sem augljóslega þarf að skoða.
Þá hefði Kristrún fyrst gefið höggstað á sér og flokknum sem hún stendur fyrir, en það er vonlegt að pólitískir andstæðingar flokks sem farið hefur með himinskautum í skoðanakönnunum, þurfi að leita sér að hæl til að bíta í.
Í þessu tilfelli skilar það ekki árangri, því Kristrún sagði ekkert annað en það sem er rétt og það sem allir sjá, vilji þeir eitthvað sjá á annað borð.
Og í því sambandi má benda á, að skipsstjórnarmenn fylgjast með ,,á bæði borð“ og vita að það þarf að gera ef ekki á illa að fara!
Auðvitað þarf að skoða þessi mál og gera má, svo dæmi sé tekið, ráð fyrir því að núverandi ráðherra málaflokksins sé því sammála að laga þurfi og bæta.
Skynsamlegt er að horfa til þess sem betur gengur t.d. á Norðurlöndunum, þar sem sumt gengur betur, en annað ver.
Þar þora menn að ræða málin, a.m.k. stundum, og þá getur gerst að sú umræða leiði til vitrænnar niðurstöðu.
Það versta sem hægt er að gera þegar eitthvað er þannig að úr þarf að bæta, er að gera ekki neitt!
Sjá ekkert, heyra ekkert, gera ekkert og vita ekkert!
Því er rétt að fagna því, að formaður Samfylkingarinnar hafi stigið fram og tjáð sig um mál, sem vakið hefur fólk til umhugsunar og í sumum tilfellum til upphlaupa í umræðunni.
Við viljum taka á móti fólki, en um það verða að gilda einhverjar reglur og ef núverandi reglur eru ekki nógu góðar, þá þarf að breyta þeim til hins betra.
Því er ekkert við það að athuga, að vakið sé máls á því sem þarf að skoða og laga.
Að tekin sé um það málefnaleg umræða, í von um að hægt sé að komast að niðurstöðu um betra fyrirkomulag.
Kristrún gerði það og hafi hún þökk fyrir.

Færðu inn athugasemd