
Söfnuðurinn sem sækir að er ekki sérstaklega eftirsóknarverður, en við gerum ráð fyrir að konungur dýranna sé hæfur til að meta hvort orðum sé eyðandi á þau sem að sækja.
Það er sótt að Rússum þessa dagana í umræðunni og óhætt mun að segja að það hafi ekki verið gott, ofan á allt annað, að andófsmaðurinn Navalny skyldi andast þar sem hann var vistaður í fangavist.
Ritari þekkir ekki sögu þessa manns til hlítar, en man efir honum í fréttum þar sem hann stóð fyrir einhverjum mótmælum, hver þau voru verður að játa, að ekki er munað.
Rússnesk stjórnvöld eru ekki sérlega mikið fyrir, að verið sé ,,að rugga bátnum“ og svo er að sjá sem þau vilji að góður starfsfriður sé á milli kosninga, sem ef rétt er munað, eru haldnar á fimm ára fresti.
En aftur að andófsmanninum.
Við munum eflaust mörg, að er hann var í flugferð í landi sínu, að þá hann kenndi sér lasleika, sem varð til þess að flugvélinni var lent á fyrsta mögulega flugvelli til að koma hinum veika farþega undir læknishendur.
Við athugun kom síðan í ljós að eitrað hafði verið fyrir manninum með alræmdu eitri sem búið var til á kaldastríðsárunum svokölluðu og sem ekki virðast vera liðin í raun, þó liðin séu að nafninu til.
Framhaldið þekkja margir en svo fór að fjandvinur mannsins Putin, hlutaðist til um, að honum yrði komið undir læknishendur í Þýskalandi og að læknismeðferðinni lokinni hélt Navalny síðan aftur heim til Rússlands og hélt þar áfram að gagnrýna það sem honum þótti miður fara í landi sínu.
Navalny var sem sagt einlægur í andstöðu sinni við ríkisstjórn Putins, sem situr að völdum eftir að hafa sigrað í kosningum sem fram fóru í ríkinu samkvæmt fyrirfram settum reglum. Kosningarnar fóru fram undir eftirliti, m.a. erlends fólks og ef rétt er munað var einn af þeim sem fylgdist með framkvæmd þeirra, fyrrverandi stjórnmálakona frá Íslandi. Kona sem hafði staðið sig afar vel sem forystumanneskja í íslenskum stjórnmálum.
Navalny komst til heilsu, en vegna þess að ekki þykir gott, m.a. þegar sótt er að ríkjum með hernaði erlendis frá, að menn séu að rísa upp gegn stjórnvöldum með mótmælaaðgerðum, því fór svo, að hann var dæmdur til fangelsisvistar, sem við vitum nú, að var í Síberíu.
Og svo er komið að Navalny er látinn og blessuð sé minning hans sem annarra sem barist hafa fyrir betri heimi, hvort heldur er í landi sínu eða á heimsvísu.
Hvernig andlátið bar að vitum við ekki neitt með vissu um, en sérkennilegt er, ef sá sem sá til þess að lífi hans yrði bjargaði, með því að útvega honum læknishjálp í Þýskalandi, stendur síðan að því að deyða þann, sem hann áður studdi til lífs.
Hinir heilögu handhafar mannréttinda og kærleika stökkva nú hver um annan á vagninn til að halda því fram að það hafi verið rússnesk stjórnvöld sem valdið hafi andláti andófsmannsins, manns sem vistaður var í fangelsi.
Við vitum ekkert enn um það, hvað það var sem olli dauða mannsins.
Við sjáum hins vegar af því uppþoti sem orðið er vegna andlátsins, að það veldur meiri vandræðum fyrir rússnesk stjórnvöld, heldur en vistun hans í fangelsinu gerði.
Auk þess má leiða hugann að þeirri hræsni sem felst í að fordæma til austurs það sem menn láta sér í léttu rúmi liggja í vestri og nægir þar að nefna mál Assanges, sem fær að rotna lifandi í bresku fangelsi til þjónkunar þarlendra við Bandaríkin.
Íslenskur fótboltamaður fékk líka að kynnast bresku réttarfari eins og flestum er kunnugt.
Grjótkast úr glerhúsi hefur ekki þótt vera til fyrirmyndar og víst er að gott getur verið að líta sér nær þegar fordæmt er.
Gagnrýni sem beinist gegn öðrum er vissulega þörf, en gott getur líka verið að líta í eigin barm.
Um fréttaflutning íslenska Ríkisútvarpsins af þessu máli sem fleirum, verða ekki höfð orð að sinni og hvort það tekur því að gera það seinna, verður metið þegar þar að kemur.

Færðu inn athugasemd