Spjallað við Putin

Tucker Carlson fór til Moskvu og fékk viðtal við Putin sem hægt er að nálgast á slóðinni sem hér fylgir með en myndin er af þeim félögum í viðtalinu.

Carlson rekur sjálfstæðan fjölmiðil á alnetinu og fer ekki alltaf troðnar slóðir og nær væri líklega að segja, að hann troði frekar slóðir fyrir aðra, sem geta síðan gengið í slóðina sem hann er búinn að leggja.

Svo mikið er víst að mikið hefur verið vitnað í viðtalið, af fjölmiðlum sem líklega treysta sér ekki til að senda mann til Moskvu þeirra erindagerða að ræða við manninn sem fer með forystu í víðfeðmasta landi veraldar.

Það sem undirritaður greip á lofti, var að Putinn segist vilja ganga til viðræðna um lausn á árekstrunum við Úkraínu, árekstrum sem nú eru orðnir að styrjöld.

Það má hverjum manni vera ljóst, að Úkraína vinnur aldrei það stríð og því er það ekki síst hagur Úkraínu að gengið verði til samninga og að þess verði gætt, að þeir séu þannig frá gengnir, að við verði unað til langrar framtíðar af beggja hálfu.

Flestir vita hver aðdragandi árekstranna sem síðan leiddu til átakanna er, þó margir séu þeir vissulega sem vilja horfa á söguna með augum sem velja hvað þau sjá og styðja þá við þá niðurstöðu sem þeir vilja að sé rétt.

Eins og flestir sjá, en margir vilja ekki skilja, þá ganga hlutirnir ekki þannig fyrir sig í mannlegum samskiptum, hvorki milli einstaklinga, haghsmunahópa né þjóða.

Því er það sorglegt að járnið sé ekki hamrað meðan það er heitt og látið á reyna, hvort ekki sé hægt að ganga frá ágreiningi Úkraínu og Rússlands við samningaborðið.

Skýringin á því að það sé ekki gert, rekur sig langt aftur í söguna, sögu Evrópu og til minnimáttarkenndarinnar sem borin er til Rússlands, minnimáttarkennd sem er svo rótgróin að vart verður slitin upp, heldur þarf að grafa hana upp úr fylgsnum sögunnar, horfast í augu við hana og afgreiða.

Að því loknu gæti orðið friður milli þjóða, þar sem hver þjóð fengi að njóta sín á eigin forsendum, samstarf gæti þroskast og blómstrað, en líkllega yrði það að gerast, án aðkomu og þrátt fyrir, tilveru Bandaríkjanna, en ekki vegna.

Færðu inn athugasemd