Límið, blóðið og pípið

Þeir hitta oftast naglann á höfuðið teiknarar fjölmiðlanna og hér að ofan sjáum við dæmi um það.

Engum dylst að ríkisstjórnin hangir saman á bláþræði og það er ,,límið“ eitt sem fær hana til að tolla saman; límið er tveggja þátta og því sleppur þetta allt til, en það má engu muna. Hvort þau sem spýtast út úr túpunni fara á límingunum innan tíðar eða gera það ekki, vitum við ekki en ljóst er flestum, að það er viljinn einn til að þrauka sem heldur fólkinu saman.

Það er óljóst hvað hleypti illu blóði í foryngja verkalýðsins, en baka skal vöfflur og deigið er ekki sérlega geðslegt sem baka á úr. Kallað er á karlinn Marx sem mun vera nokkuð langt undan og alls ekki víst að hann heyri ákallið og reyndar eins líklegt að hann vilji ekki heyra, því maður hlustar jú ekki á hvern sem er, eins og þar stendur!

Utanríkisráðherrann er ekki utan við sig á teikningu Halldórs sem birtist á visir.is, það er mikið að gera hjá ,,miskunsama Samverjanum“. Sá sem er í símanum er nokkuð aftarlega í röðinni og sætt er lagi, til að láta sambandið rofna. Sambandi sem er í rauninni ekkert samband, heldur aðeins eintal þess sem ekkert vill gera, verður fyrir stöðugu áreiti, er pirraður og skellir að lokum á.

En til að allt líti betur út gefur hann frá sér hljóð sem á að benda til þess að um tæknilega bilun sé ð ræða!

Þannig er þetta í hnotskurn og það er stundum þrautaráð að stinga höfðinu í sandinn, þverskallast og heyra ekki, sjá ekki og skilja ekki, vera vankaður, pirraður og dálítið fúll, rjúfa sambandið, sem í raun ekkert samband er og láta líta svo út, sem það hafi einungis verið gert af tæknilegum ástæðum.

Færðu inn athugasemd