Þegar Vigdís Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtakanna skrifar hugleiðingu, þá leggst maður í lestur og íhugun, hugsar til baka og gleðst yfir því sem orðið er.

Vigdís segir í pistli sínum sögu af mönnum sem sátu á bar. Annar var orðinn frekar langt genginn í drykkjunni, en líkt og stundum er undir slíkum kringumstæðum, þá kunni hann sér ekki hóf og vildi meira. Félagi hans benti honum á að komið væri nóg og minnti á að best væri að hætta hverjum leik þá hæst hann stæði.
Líkt og gerst getur undir þessum kringumstæðum, var rökhugsun fokin út í veður og vind og sá drukkni hreytti út úr sér spurningu um, hvort til stæði að hindra að hann kæmist lengra á þróunarbrautinni og sagði síðan orðrétt: „Þú ert að takmarka rétt minn til þróunar!“
Vigdís telur, að ,,Kumpáninn [hafi verið] að vísa til yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um réttinn til þróunar sem samþykkt var á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 4. desember 1986 (e. declaration on the right to development), sem telst til ófrávíkjanlegra mannréttinda í krafti þess að sérhver einstaklingur á rétt til þátttöku og að leggja sitt af mörkum svo hann fái notið efnahagslegrar, félagslegrar, menningarlegrar og pólitískrar þróunar í samfélagi þar sem öll mannréttindi og grundvallarfrelsi skulu uppfyllt.“
Bloggara grunar að pilturinn hafi ekki hugsað svona djúpt, fyrir nú utan það, að ekki er hægt að sjá að fylliríisröfl samræmist því sem hann vitnaði til!
Vigdís spyr síðan, hver sé réttur íslenskra bænda til þáttöku í þróun samfélagsins og hvað þeir hafi lagt að mörkum í því efni og svarar því til, að þeir hafi t.d. komið að verkefnum sem tengjast þróun á umhverfis og loftslagsmálum.
Þegar það er sagt, rifjast upp hve framsýnir bændur voru þegar kom að rafvæðingu sveitanna. Þegar þeir settu upp vindmyllur til raforkuframleiðslu, auk þess sem þeir virkjuðu bæjarlækinn ef það bauðst. Þannig stuðluðu þeir að hreinna lofti í bæjum sínum, auk þess að margvísleg önnur lífssskilyrði bötnuðu til muna.
Nú víkjum við frá hinni góðu grein Vigdísar og hugsum til þess hvernig fara myndi ef bóndi í sveit vildi koma sér upp vindmyllu til raforkuframleiðslu og virkja ef til vill líka bæjarlækinn eins og áður var gert og samkeyra síðan búnaðinn til nota í búrekstrinum og til heimilisnota.
Hvernig halda menn að það myndi ganga í þjóðfélagi nútímans, þar sem ,,möppudýrum“ af ýmsasta tagi hefur verið fundinn staður í ,,kerfinu“ til að sjá til þess, að sjálfsbjargarviðleitni þrífist helst ekki, hugsun til framfara sé drepin í fæðingu og refsing gerð, ef ekki er tekið mark á hinum áunna óskapnaði.
Bændur hafa verið, eru og vilja vera, þátttakendur í því að þróa þjóðfélagið áfram en ekki aftur á bak. Eiga að vera hluti af þróun þjóðarinnar, hafa verið það og munu verða það áfram, svo fremi sem böndum verður komið á þau öfl sem vilja allt drepa í dróma.
Öflin sem vilja svo dæmi sé tekið, hafa finkur, páfagauka og aðra skrautfugla í búrum, svo ekki sé nú minnst á mýs af hvaða tagi sem er, en vilja hafa varphænur vafrandi um víðan völl, verpandi út og suður og farandi sér að voða, ef ekki er því meiri aðgæsla viðhöfð.
Njóta þess síðan að skoða villidýr hverskonar, rammlega lokuð í búrum, í dýragörðum heimsins og segja við börnin sín: sjáið hvað dýrið er fallegt og hvað því líður vel!

Færðu inn athugasemd