Konurnar sem tóku flugið og ríkisstjórnin getulausa

Á visir.is er sagt frá því þegar fjölskylda sameinaðist eftir að þrjár íslenskar konur tóku sig til og fóru til Kaíró, fundu síðan með þarlendri aðstoð konu og börn og komu með þau til landsins þar sem eldgosahrinan er í gangi.

Fólkinu sem fjölskylduna myndar þótti að vonum gott að hittast eftir langan aðskilnað og konurnar sem gerðu íslenskri utanríkisþjónustu skömm til eiga hrós skilið.

Þær gerðu það sem íslensk yfirvöld vildu ekki gera og gátu ekki gert, en ríkisstjórnin hefur sannað getuleysi sitt í þessu máli, sem mörgum öðrum og situr nú uppi með skömmina.

Það hefur komið skýrt í ljós á síðustu dögum að ríkisstjórn sem situr til þess eins að sitja, er ekki á vetur setjandi.

Borgarnesstjórnin er skýrt dæmi um,  að sameining stjórnmálaafla frá öfga vinstri til ysta hægri, ásamt miðjuflokki sem er bara til, til þess að vera, á engan rétt á sér.

Ríkisstjórn af því tagi kemur ekki málum í höfn og situr til þess eins, að verma ráðherrastóla og lætur reyna á innviði samfélagsins þar til þeir bresta.

Og þó er í henni innviður geirnegldur í einn af ráðherrastólkunum, að því er virðist til þess eins að fylla upp í töluna.

Innviðirnir eru að bresta svo sem sannast hefur í náttúruhamförunum á Reykjanesi, þar sem ekki stendur steinn yfir steini í bókstaflegri merkingu þeirra orða.

Raforkukerfið stendur ekki undir því að halda lágmarkshita í íbúðum fólks, vegna þess að menn hafa ekki haft bein í nefinu til að taka á þekkingarleysi og þröngsýni þeirra sem staðið hafa í vegi fyrir uppbyggingu kerfisins á svæðinu.

Allir, eða a.m.k. flestir, þekkja hvernig gengið hefur að leggja Reykjaneslínu númer tvö, þar sem þekkingarleysi og þröngsýni hefur staðið í vegi fyrir framkvæmdum.

Nú er verið að reyna að bjarga því sem bjargað verður í því efni með dísilstöðvum, umhverfisberserkjum væntanlega til ánægju og yndisauka.

Sama má segja um hvernig gengið hefur að koma af stað byggingu nýrra virkjana, þar hefur allt staðið fast, með þeim afleiðingum að fiskimjölsverksmiðjur eru hver af annarri að skipta út raforku, yfir í olíu.

Olíu sem óþarft væri að brenna til þessara hluta, ef aðeins væri hægt að tjónka við niðurnagara samfélagsins; alvitringana sem allt telja sig vita, en vita í rauninni fátt, fólkið sem virðist halda að vatnið hætti að renna í árfarvegunum við það eitt að fallorkan í því sé nýtt til raforkuframleiðslu.

Gleymum því ekki, að takmarkaðar olíubirgðir eru í landinu m.a. vegna þess að ekki hefur verið hlustað á varnaðarorð, eins og t.d. þau sem fram komu í skýrslu sem tekin var saman undir stjórn Björns Bjarnasonar.

Þar var varað við þvi hvernig komið væri varðandi birgðahald á olíu, þar sem menn fundu það út af visku sinni, að best væri að leggja af birgðahald í Hvalfirði og koma olíuforða þjóðarinnar fyrir í Örfisey.

Væntanlega til þess að hægt sé að njóta þess að þramma á olíuflutningabílum eftir Reykjavík endilangri um gatnakerfi sem ekki má treysta né efla, af pólitískum ástæðum og öfugsnúinni sveitamennsku.

Þeirri sömu sveitamennsku og sem veldur því, að teppa þarf eitt besta land borgarinnar til uppbyggingar, undir flugvallarómynd sem allir vita, nema framsóknarmenn allra flokka, að verður á endanum nýtt til uppbyggingar.

Lausnin sem menn sjá á því máli, er að teygja borgina og sundurslíta með uppbyggingu á Kjalarnesi en þangað á síðan fara eftir ,,Borgarlínu“ sem alls ekki má leggja. Vegna þess hve það er notalegt að dvelja í  umferðarteppunni í Mosfellsbæ.

Færðu inn athugasemd