
Of margir stjórnmálamenn ríkra landa og baráttufólk í loftslagsmálum gleymir því að stór hluti heimsins er enn fastur í kviksyndi fátæktar og hungurs. Samt eru rík lönd í auknum mæli að skipta út þróunaraðstoð sinni fyrir útgjöld til loftslagsmála. Alþjóðabankinn, sem hefur það að meginmarkmiði að leiða fólk undan oki fátæktar, hefur nú tilkynnt að hann muni beina í það minnsta 45 hundraðshlutum fjármuna sinna til loftslagsmála og færa um 40 milljarða dollara árlega frá aðstoð vegna fátæktar og hungurs.
Það er auðvelt að líta á loftslag sem forgangsverkefni heimsins þegar líf þitt er þægilegt. 16% jarðarbúa sem búa í þessum löndum svelta venjulega ekki eða horfa á ástvini deyja vegna sjúkdóma sem auðvelt er að meðhöndla eins og malaríu eða berkla. Flestir eru vel menntaðir og meðaltekjur þeirra eru á við það sem áður þekktist aðeins meðal aðalsmanna.
Stór hluti heimsbyggðarinnar á þó enn í basli. Í fátækari löndum deyja fimm milljónir barna á hverju ári fyrir fimm ára aldur og nærri milljarður manna er vannærður. Meira en tveir milljarðar þurfa að elda og halda á sér hita með mengandi eldsneyti á borð við mykju og timbur, sem styttir líftíma þeirra. Þrátt fyrir að flestir ungir krakkar sæki nú skóla valda takmörkuð gæði menntunarinnar því að flest börn í lágtekjulöndum verða áfram ólæs.
Fátæk lönd þurfa sárlega á að halda auknum aðgangi að þeirri ódýru og miklu orku sem áður gerði ríkum þjóðum kleift að þróast. Skortur á aðgengi að orku hamlar iðnvæðingu, vexti og tækifærum. Sem dæmi er rafmagn í Afríku af svo skornum skammti að tiltæk raforka á mann er minni en það sem knýr einn ísskáp í hinum ríka heimi.
Að teygja fingurna í fjármuni til þróunaraðstoðar vegna loftslagsútgjalda er ömurleg ákvörðun. Loftslagsbreytingar eru raunverulegar en engin gögn réttlæta forgangsröðun útgjalda til að bregðast við þeim á kostnað takmarkaðra sjóða sem ætlaðir eru til fátækraaðstoðar.
Loftslagssinnar halda því fram að fátækt og loftslagsbreytingar séu órjúfanlega tengd og við ættum að setja fé í hvort tveggja. En það erum við í raun ekki að gera. Og rannsóknir sýna ítrekað að forgangsröðun útgjalda til kjarna þróunaraðstoðar gerir miklu meira gagn og mun hraðar fyrir hvern dal sem varið er en að setja fjármagn í loftslagsmál. Það er vegna þess að raunverulegar þróunarfjárfestingar, hvort sem það er til að berjast gegn malaríu, efla heilsu kvenna og stúlkna, efla rafrænt nám eða auka framleiðni í landbúnaði, geta gjörbreytt lífi til hins betra strax og gert fátækari lönd betur sett á svo margan hátt. Þar með talið gert þau betur í stakk búin til að mæta náttúruhamförum og öðrum hamförum sem tengjast loftslagi. Aftur á móti myndi jafnvel stórtæk minnkun kolefnislosunar ekki skila neinni sýnilegri framför í eina kynslóð eða lengur. Þó að í útgjöldum vegna aðlögunar til að byggja upp styrk og þol í fátækum löndum felist örlítið skilvirkari meðferð fjármuna en í útgjöldum til að draga úr kolefnislosun eru hvor tveggja mun lakari en fjárfesting í skilvirkustu þróunarstefnunum.
Loftslagsbreytingar eru ekki endalok heimsins. Þvert á móti sýna spálíkön loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna að heimurinn mun batna verulega á öldinni og að þrátt fyrir herferð fólks með heimsendaótta muni loftslagsbreytingarnar einungis hægja lítillega á þeim framförum. Á síðasta ári var kornframleiðsla í heiminum sú mesta frá upphafi. Þar sem tekjur og ávöxtun halda áfram að hækka mun hungur minnka verulega á næstu áratugum. Spáð er að loftslagsbreytingar muni aðeins gera það að verkum að hungur minnkar aðeins hægar. Sömuleiðis gerir nefndin ráð fyrir að meðaltekjur á heimsvísu muni 3,5-faldast fyrir árið 2100 án loftslagsbreytinga. Jafnvel þótt við gerðum lítið gagnvart loftslagsbreytingum þá sýnir prófessor William Nordhaus, eini loftslagshagfræðingurinn sem hlotið hefur Nóbelsverðlaunin, að það myndi einungis hægja á framförum. Árið 2100 hefðu tekjur samt hækkað 3,34 sinnum.
Við ættum að takast á við loftslagsbreytingar á skynsamlegan hátt með því að stjórnir ríkari landa setji fé í bráðnauðsynlegar langtímafjárfestingar í rannsóknum á grænni orku og til að móta nýsköpunarlausnir sem skila áreiðanlegri orku á verði sem allir hafa efni á. Stór hluti verr stæðra ríkja vill fyrst og fremst koma fólki út úr fátækt og bæta lífsgæði þess með ódýrri og áreiðanlegri orku. Samt neita rík lönd nú að fjármagna nokkuð það sem á einhvern hátt tengist jarðefnaeldsneyti.
Af þessu er óþefur hræsni því ríku löndin fá sjálf næstum fjóra fimmtu orku sinnar úr jarðefnaeldsneyti. Aðallega vegna óáreiðanleika og geymsluvanda sólar- og vindorku. Samt varpa þau hrokafullum ávirðingum yfir fátæk lönd fyrir að stefna að auknum orkuaðgangi og leggja það til að hinir fátæku ættu einhvern veginn að „hoppa yfir reit“ til sólar- og vindorku með sínum sundurslitna aðgangi og óáreiðanleika sem ríki heimurinn samþykkir ekki fyrir sínar eigin þarfir.
Í flestum fátækum löndum eru loftslagsbreytingar mjög neðarlega á forgangslista fólks sem þar býr. Stór könnun meðal leiðtoga í lág- og millitekjulöndum dregur líka fram að menntun, atvinna, friður og heilbrigðismál eru efst á forgangslista þeirra í þróunarmálum, en loftslagsmál eru í 12. sæti af 16 málaflokkum.
Fátækari helmingur heimsins á svo sannarlega skilið tækifæri til að bæta líf sitt. En þegar stjórnmálamenn biðja um meira fé undir því yfirskini að hjálpa þeim fátækustu í heiminum ættum við að krefjast þess að það fari til skilvirkra þróunarverkefna sem raunverulega bjarga og umbreyta mannslífum. Ekki til óhagkvæmra loftslagsáætlana okkur til vellíðunar.
Grinin er birt hér óbreytt.

Færðu inn athugasemd