
Það gengur ekki vandræðalaust að nýta möguleika til orkuöflunar og þó orku sé sárlega farið að vanta, þá situr allt við það sama. Það þarf ,,umhverfismat“, ,,umsagnir“ og allt hvað heitir og niðurstaðan er, að ekkert gengur að koma af stað virkjanaframkvæmdum og skiptir þá engu hvort þær eru stórar eða smáar.
Hvorki gengur né rekur og orkuskorturinn verður sífellt meiri.
Það er svo komið í samfélaginu okkar, að nær ekkert er hægt að framkvæma vegna flækjuverks sem búið hefur verið til á alþingi og af reglugerðasmiðum, þar sem alvitringar eru á báðum stöðum nægjanlega margir til að geta valdið tjóni.
Olía er flutt inn og katlar eru settir upp til að brenna henni í fiskimjölsverksmiðjum, en á sama tíma spretta upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla líkt og gorkúlur á haug, í þeim vafasama tilgangi að bæta loftslag Jarðarinnar.
Gera má ráð fyrir að ef bændur vildu í nútímanum koma sér upp vindmyllum til orkuöflunar, eða virkja bæjarlækinn líkt og gert var í frumbernsku raforkuvæðingarinnar hér á landi, að þá sætu slíkar hugmyndir fastar í regluverki alvitringa sem allt telja sig vita um umhverfismál, en vita í rauninnni fátt ef nokkuð um þau frekar en annað, þegar grannt er skoðað.
Virkjunin sem hér er til umfjöllunar er smávirkjun sem engum skaða getur valdið, en gæti gert gagn og framleitt raforku sem vantar. Til að það geti orðið þarf málið að fara í allskyns möt og ráð, þar sem japlað verður og fuðað, þar til áhugi þeirra sem að virkjuninni vilja standa er horfinn.
Annars er þrautseigja þeirra sem vilja bjarga þjóðinni frá orkuskorti jafn aðdáunarverð og regluverkið sem blýantsnagarar og blekbyttuberserkir þjóðarinnar hafa skapað, er ekki til að dáðst að.
Því það er skaðlegt og drepur niður áhuga þeirra sem horfa til framtíðar.

Færðu inn athugasemd