
Reykjavík er orðin með fegurstu borgum, þökk sé þeim sem haldið hafa um taumana síðustu árin.
Það sem undirritaður man einna fyrst eftir sem valdið hefur straumhvörfum, eru mannvirki s.s. Perlan og aðsetur borgarstjórnar í norðurenda Tjarnarinnar.
Síðan gerðist það að til valda komust þau sem sáu vítt yfir sviðið og gerðu meira af mörgu.
Og ekki má gleyma því, að maður með stóra drauma hratt af stað byggingu sem sumir voru á móti en enginn vill nú vera án, þ.e. Hörpu.
Þau sem vildu gera ,,meira af ýmsu“ voru ekki endilega með í huga að búa til minnismerki, en komu þess í stað víða við og störfuðu líkt og kjörorðið væri að gera mikið af litlu og sjá hvort það kæmi ekki vel út.
Það tókst og eftir situr falleg borg, prýdd fallegum hlutum og byggingum sem sumar hafa gengið í endurnýjun lífdaga, ef svo má taka til orða um dauða hluti.
Það stóra gleymdist ekki og hugað hefur verið að samgöngubótum, en gengið á veggi með þær hugmyndir sumar og því er flugvallar- óskapnaðurinn enn á sínum stað svo dæmi sé tekið.
Umferðarflækjan er orðin, við það að vera óbærileg á köflum, en hvað sem því líður, þá er borgin breytt frá því að vera grá og guggin og orðin meira lík því sem sjá má t.d. á myndinni af Skólavörðustíg.
Borgarlínan er stórt verkefni sem leysa verður af Sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og ríkinu í sameiningu.
Það verður torvelt, geti menn ekki hrist af sér sveitamennsku- andúð og inngróna íhaldsemi.
Formaður Samfylkingarinnar getur brosað, ekki bara af því að vel hafi gengið í Reykjavík, heldur vegna þess að samkvæmt skoðanakönnunum blómstrar flokkurinn hennar sem aldrei fyrr.
Komist hann til valda, þá getur hann nýtt sér reynsluna frá borginni og látið þus nag og nýð, sem vind um eyru þjóta.
Jafnvel komið upp gróðurreit á afviknum stað fyrir fólk sem gaman hefur af að reyta upp gras, því til dægrastyttingar og öðrum til skemmtunar.
Nag og uppslit stráa ristir ekki djúpt en getur veitt útrás fyrir gramt geð og því er sjálfsagt að gefa listhafendum kost á þeim möguleika.
Niðurlögð bankasýsla byltir sér í gröfinni og kostar 152 milljónir og er þar með komin í hóp þeirra ríkisfyrirbæra sem ekki er hægt að losna við, fyrirbæra sem voru óværa, ganga aftur og verða áfram óværa, eftir brotthvarf af spenanum.

Færðu inn athugasemd