Hamfarirnar á Reykjanesi

Það er ekkert sem gerst hefur áður, sem er eins og það sem gerst hefur í Grindavík og það sem næst því kemst er gosið í Heimaey.

Það er sameiginlegt með þessum hamförum að íbúarnir þurftu að flýja heimili sín í ofboði og lifa síðan í óvissu um framhaldið.

Í Vestmannaeyjum fóru hús og fleira undir hraun og ösku, en í Grindavík eru það jarðsprungur og gjár sem opnast hafa og sem eyðilagt hafa byggðarlagið.

Hraun hefur ekki enn sem komið er, runnið yfir byggð í þeim mæli sem gerðist í Heimaey. Óhugnanlegt var samt að sjá það gerast í Grindavík á dögunum og sjá húsin brenna til kaldra kola án þess að nokkuð væri hægt að gera.

Bærinn er stórhættulegur að fara um, fyrirtæki eru ónýt orðin og annað er eftir því, en byggðin sem stendur nánast enn, er sem skýrt dæmi um hverju þekking byggingaverkfræðinga hefur skilað okkur varðandi mannvirkjagerð.

Við sjáum í fréttum að altjón, er nú sem stendur, talið vera á 53 húseignum og þó hart sé að segja það, kæmi það sér eflaust betur fyrir eigendur þeirra húsa sem eftir standa, með heillegar eignir á óbyggilegum stað, að matið á eignum þeirra væri það sama.

Ónýt eign verður væntanlega greidd refjalaust út af Hamfarasjóði, en hætt er við að japl jaml og fuður geti fylgt því að sitja uppi með heillega eign, sem samt er ekki hægt að búa í, að sækja fyrir hana bætur. Til þess að það verði hægt, þarf trúlega að breyta lögum og sé svo, verður að gera það.

Á vef Morgunblaðsins er hægt að finna umfjöllun um stöðuna á Reykjanesi og þar segir m.a. í viðtali við : Hrafnkell Á. Proppé, fyrrverandi svæðisskipulagsstjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að eldsumbrotin muni hafa áhrif á skipulag byggðar á Reykjanesinu, auk þess sem, huga [þurfi] að varnargörðum víðar á svæðinu.

Auk þess bætir hann því við, að Reykjanesskaginn allur sé í raun virk eldstöð og bendir jafnframt á að þetta [sé] svo nýlega orðið raunverulegt fyrir mönnum að hugsa þurfi skipulag svæðisins upp á nýtt.

Og bætir við:

„Ég tel óhjákvæmilegt að þegar verið er að skoða uppbyggingarsvæði, sérstaklega ný uppbyggingarsvæði, og hver þróunin er til framtíðar á höfuðborgarsvæðinu, verði í miklu meiri mæli horft á ný hraunflæðilíkön. Þannig að eldsumbrotin nú setja svæði sem eru nær eldstöðvunum í nýtt samhengi. Það þarf að nálgast þau með allt öðrum hætti en hefur verið gert undanfarin ár og áratugi…“

Þetta er það sem staðið er frammi fyrir. Verkefnið er stórt og ekki einfalt að ráða fram úr því.

Ljóst er, svo sorglegt sem það er og sárt fyrir íbúana og þjóðina alla, að ekki verður búið í Grindavík á næstunni.

Færðu inn athugasemd