
Það bárust tíðindi af baráttunni við riðuveiki í sauðfé, þegar sagt var frá því að fundist hefðu kindur í Dölunum sem væru með verndandi erfðaeiginleika gegn riðu.
Sé það rétt, sem allt bendir til, þá er búið að finna þessa eiginleika, annarsvegar á Austfjörðum og hinsvegar í Dalasveit og mun það auka til muna möguleika á að ráða niðurlögum veikinnar.
Viðtal við Herdísi Mögnu Gunnarsdóttur, bónda á Egilsstöðum sem birtist í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni, ,,Aukin sjálfvirkni og nákvæmnisbúskapur“, er bæði hressandi og uppörvandi.
Hún viðurkennir að vinnuálagið sé oft mikið, en telur það til forréttinda að fá að vinna við dýr og náttúru.
Segir frá því að miklar framfarir hafi orðið í vöruþróun íslenskra landbúnaðrvara og bendir á að landbúnaðurinn sé langhlaup. Hún bendir ennfremur á að:
,,Nýir [búvöru] samningar verða að taka mið af nútíma neysluháttum; styðja við fleiri greinar matvælaframleiðslu og tryggja að stuðningurinn sé í samræmi við innanlandsþörf„.

Hvalur hf. gefst ekki upp og fyrirtækið hefur sótt um leyfi fyrir hvalveiðum, þrátt fyrir hremmingarnar sem það lenti í á síðasta ári, þegar ráðherra málaflokksins svifti fyrirtækið veiðileyfinu rétt í upphafi vertíðar. Leyfið var síðan veitt þegar komið var haust og reikna máttil með því að verra yrði að standa að veiðunum!
Allt var þetta gert í nafni mannúðarsjónarmiða af hálfu ráðherrans, en ,,svo langt nær mannúðin manna sem matarástin nær“, eins og þar stendur og mannúðin náði sem sagt ekki til sjómannanna sem þurftu vegna bannsins að stunda veiðarnar á tíma sem að öllu jöfnu er mun erfiðari til hvalveiða.
Það er ekki öllum gefið að þekkja mun að sumri og hausti, blekbyttum og hafi, skrifborði og skipi, né sjó og landi!
Í Grindavík keppast menn við að bjarga verðmætum við afar erfiðar aðstæður og við gerum ráð fyrir því, að hugur ráðamanna þjóðarinnar sé hjá Grindvíkingum, líkt og hann er meðal þjóðarinnar allrar og við óskum þeim alls hins besta, með von um að farsæl lausn finnist á þeim mikla vanda sem þeir standa frammi fyrir.

Færðu inn athugasemd