
Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands, skrifaði grein um tryggingar sem birtist í Morgunblaðinu þann 29/1/2024.
Sigurður útskýrir tilkomu tryggingasjóðsins og regluverkið sem gildir um hann, en sjóðnum var komið á fót eftir eldgosið í Heimaey.
Sigurður útskýrir málið vel og greinin er gott innlegg inn í þá umræðu sem er og mun væntalega verða, vegna tjónsins sem orðið er í Grindavík; tjón sem enginn veit í raun hve mikið verður fyrr en að hamförunum loknum.
Sigurður bendir m.a. á eftirfarandi:
,,Íslendingar eru lánsamir að hafa sýnt þá fyrirhyggju að koma á fót náttúruhamfaratryggingum í kjölfar eldgossins í Eyjum. Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) grípur fólk og kemur því til aðstoðar þegar náttúruhamfarir verða og bætir tjón sem verður á vátryggðum eignum af völdum þeirra.“ og minnir á að
,,Slíkt fyrirkomulag var ekki til staðar fyrir eldgosið í Eyjum“.
Greininni lýkur með eftirfarandi áminningu sem frekar mætti kalla hvatningu:
,,Hvernig sem aðgerðirnar munu reynast er nauðsynlegt að draga lærdóm af atburðunum í Grindavík.
Þegar er ljóst að hamfarirnar munu ganga nærri sjóðum NTÍ. Í kjölfarið er nauðsynlegt að fjármögnun NTÍ verði tryggð svo stofnunin geti staðið undir skuldbindingum sínum í framtíðinni, því sagan mun endurtaka sig.
Hamfarirnar ættu líka að vekja stjórnmálamenn til umhugsunar um mikilvægi þess að fyrir hendi sé varasjóður, sem nefndur hefur verið Þjóðarsjóður, sem nýta má þegar tjón verður sem hvorki hefðbundnar vátryggingar né náttúruhamfaratryggingar bæta.
Nauðsyn Þjóðarsjóðs blasir eiginlega við nú þegar nauðsynlegt þykir að ráðast í uppkaup á fjölda fasteigna í Grindavík sem ekki er víst að fáist bættar, í stað þess að fjármagna kaupin úr ríkissjóði eða með sértækri skattheimtu.
Þetta reyndum við líka í covid-19-faraldrinum og í kjölfar hrunsins. Í báðum tilvikum varð þjóðarbúið fyrir meiri háttar efnahagsáföllum. Ófyrirséð röskun á samgönguinnviðum og orkuframleiðslukerfum okkar, að ógleymdum vistkerfisbreytingum, gæti í framtíðinni haft í för með sér alvarleg efnahagsleg áföll.
Slíkan sjóð mætti starfrækja til hliðar við NTÍ. Hann mætti fjármagna með afrakstri af sameiginlegum náttúruauðlindum okkar, t.d. arðgreiðslum frá Landsvirkjun eða öðrum ábata af nýtingu auðlindanna.
Reynslan sýnir að minnsta kosti að til mikils er að vinna fyrir okkur að vera vel undirbúin næst þegar áföll af þeirri stærðargráðu sem við nú upplifum dynja á okkur.“
Vonandi er hægt að lesa greinina af myndinni og/eða í Morgunblaðinu, hafi menn aðgang að því.

Færðu inn athugasemd