Við byrjum á léttu nótunum og virðum fyrir okkur fjóra karla sem Ívar teiknari Morgunblaðsins færir okkur. Reyndar má segja að þeir séu þrír ef við teljum þann sem er á stallinum með.

Sá horfir í spurn á stjórnendur þjóðarinnar, sem eru með is og þys út af engu, eins og eins og þeim er tamt. Sá í bláu fötunum mun vera utanríkisráðherrann en sá prestklæddi höldum við að sé náungi sem villtist inn í flokkinn hans Bjarna eftir kosningar. Á hinni myndinni eru flokkfastir og traustir(?) frambjóðendur, ,,prestklæddir“, sem vilja vera og verða forsetar Bandaríkjanna. Þeim kemur greinilega ekki saman um hvort rétt sé að ,,fá sér í glas“, né hvort dagurinn til þess sé réttur. Svona er ástandið á stjórnarheimilinu okkar annars vegar og í Bandaríkjunum hinsvegar. Það er á báðum stöðum verið að þrasa um keisarans skegg.

Það er ánægjulegt fyrir okkur, sem berum hag landbúnaðarins fyrir brjósti, að Bændablaðið skuli vera mest lesna blað landsins. Það er eiginlega meira en hægt er að búast við, sé tekið mið af því hvernig búið er að landbúnaðinum, því í blaðinu má finna ótalmargt sem ekki sést annarstaðar og margt af því er áhugavert að mati þess sem þetta ritar.

Við sjáum m.a. að sem betur fer er það svo, að ungt fólk er til í að hella sér út í búskap, er stórhuga og býr t.d. með nær hálft annað hundrað kúa. Við vitum að það eru blikur á lofti og stjórnvöld eru illa vakandi gagnvart matvælaframleiðslunni og virðast frekar vilja að landbúnaðarafurðir séu fluttar inn, en að þær séu framleiddar í landinu sjálfu.

Ein af þeim búgreinum sem gefur gjaldeyristekjur í þjóðarbúið, er hrossaræktin; grein sem sér um sig sjálf og er að langmestu, ef ekki með öllu, laus við að þiggja styrki frá hinu opinbera. Segja má að hrossaræktin sé blanda af sporti og atvinnurekstri og ekki er annað að sjá, en það fari ágætlega saman.

Önnur búgrein spjarar sig með ágætum og það þrátt fyrir afskipti hins opinbera af henni en ekki vegna þeirra, það er að segja alifuglaræktin og það sama má segja um svínaræktina.
Alifuglabændur hafa náð góðum árangri, þrátt fyrir að þeir þurfi að kosta meiru til en erlendu keppinautarnir og einnig, þrátt fyrir að kornið sem þeir nota sé flutt inn, en ekki framleitt innanlands. Ef eitthvað er notað af innlendu korni, þá er það a.m.k. afar lítið hlutfall af heild. Svínabændur og nautgripabændur, hafa verið að fikra sig áfram í kornrækt undanfarin ár og ef rétt er munað, þá er a.m.k. eitt svínabú sem ræktar sjálft það korn sem það þarf til rekstrarins.
Komnar eru fram hugmyndir í Evrópusambandinu um að heimila ekki framleiðslu á kjúkingakjöti nema sem svarar til 11 kg af kjöti á hvern fermetra í eldishúsi, eftir því sem segir í Bændablaðinu og sjá má hér að ofan. Verði þetta niðurstaðan mun Ísland nánast örugglega apa reglugerðina eftir og trúlegast á þann veg, að hér á landi verði ekki leyfður meiri þéttleiki í húsum en sem svarar til 8 til 9 kílóa á fermetra. Verði niðurstaðan þessi, er framleiðslunni sjálfhætt, bæði hérlendis og í ESB. Þess í stað verður flutt inn kjöt frá öðrum löndum, löndum sem við viljum helst ekki taka okkur til fyrirmyndar.
Þingmenn þjóðarinnar efndu sem kunnugt er, til innflutnings á vafasömu kjúklingakjöti frá Úkraínu (sem reyndist reyndar vera framleitt af hollensku stórfyrirtæki) í þeirri trú að með því gætu þeir bjargað landinu frá eigin óstjórn og meintri illsku rússneska bjarnarins. Hvorugt tókst vitanlega ekki, en landafræðiþekking hinna íslensku þingmanna hefur verið mærð af miklum móð eftir þetta frumhlaup, því ein rökin fyrir innflutningsheimildinni voru, að Úkraína væri svo langt í burtu að engan raunverulegan innnflutning þyrfti að óttast.
Íslenskir viðskiptamenn þurftu ekki að líta á landakortið til að vita betur

Þegar nálgast lok þessa pistils er rétt að segja frá því, að ríkisstjórnin er blönk þegar kemur að því að huga að landbúnaðinum, fagnar(?) að ,,losun“ frá landbúnaði minnki í landi þar sem þjóðin stækkar og sér fyrir sér framtíðina felast í því, að framleiðsla landbúnaðarvara flytjist eitthvað annað!
Undir lokin má svo segja frá því að Íslendingar sömdu við Rússa um að þeir síðarnefndu mættu selja og framleiða svokallað Ísey skyr, en þegar Rússar svöruðu langvarandi ófriði og manndrápum manna frá Úkraínu inn í sjálfstjórnarhéruðin Donbas og Luhans með vopnuðum afskiptum, þá helltist yfir hina íslensku skyrsölumenn meðvirkni.
Þeir riftu samningum um að Rússar mættu framleiða fyrrnefnda skyrtegund, Rússum líklega til ánægju, því nú framleiða þeir sitt Íseyjar skyr sjálfir eins og sjá má hér að ofan á mynd úr Bændablaðinu og það alveg án afskipta Íslendinga. Rússar eru nú lausir við að greiða fyrir framleiðsluréttinn, brosa sínu rússneska brosi og framleiða sitt skyr án þess að þurfa að greiða greiðslur til hinna sönnu Íseyinga. Skyrsalarnir hugumstóru, sitja eftir með sárt ennið og sýta sinn hlut!

Í bláendann á þessum pistli sjáum við að búið sé að rjúfa gat á Íslandsbanka. Ekki er um bankarán að ræða, heldur mun þetta vera fyrsti áfanginn á þeirri leið að fjarlægja húsið af lóðinni. Framkvæmdin hefst sem sagt með því að búið er til gat, sem verður síðan stækkað, þar til ekkert verður eftir, annað en enn eitt gatið í byggingarsögu þjóðarinnar.
Okkur til upplyftingar getum við dáðst að bílaflotanum sem fluttur var inn – og þjóðin greiddi fyrir – í tilefni að montstefnu sem haldin var í boði íslensku þjóðarinnar.
Hvar flotinn er núna vitum við ekki!

Færðu inn athugasemd