Miðausturlönd og Ísland

Nánast frá upphafi átakanna hefur CNN.COM flutt ítarlegar fréttir af ástandinu í Palestínu.

Aðdragandann þarf vart að fjölyrða um, en eins og flestir munu vita, var það árás sem Hamaz gerði á tónleikagesti sem hratt Netanyahu og félögum hans fram af brúninni.

Og nú eru þeir á flugi til heljar og lendingin getur orðið hrikaleg.

Þegar svo er komið, að besti vinur aðal, er farinn að sveifla sprotanum og gera sig líklegan til að slá á putta, þá getur verið betra að hugsa fyrst og gera svo.

Afleiðingin af viðbrögðum Netanyahu og félaga eru óhugnanleg fjöldamorð – sem nú orðið er farið að kalla ,,dráp“ – á almennum borgurum á Gaza og vart þarf að taka fram að ,,drápin“ ná jafnt yfir, allt frá nýburum til gamalmenna.

Svo langt er gengið að hinir dauðu fá ekki frið og eru jafnvel grafnir upp. Hvað það á að þýða er erfitt að skilja, en augljóst er, að vitfirringin er mikil.

Átökin breiðast út og fréttastofan sem hér er stuðst við, tekur það ágætlega saman og sýnir á kortum hvernig málum er komið.

Ófriðaröldurnar rísa hátt þessar vikurnar og erfitt að segja til um hvert þetta þróast og hvernig það endar.

Það eina sem við vitum, er að ólgan er mikil og að tjöld á Austurvelli eru sem hjóm eitt í samanburðinum!

Hafa þau þó komið því af stað að fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi utanríkisráðherra, hefur um eitthvað að tala og skrifa á samfélagsmiðlum, auk þess sem fyrrverandi Framsóknar, Miðflokks og núverandi Sjálfstæðismaður á alþingi, hefur fundið sér hlutverk.

Það er nefnilega gott, að geta bent á eitthvað annað, þegar staðið er frammi fyrir því sem ekki ræðst við, því eins og við höfum tekið eftir, þá hlusta náttúruöflin ekki á stjórnmála og dægurþras, heldur fara einfaldlega sínu fram, hversu mikið sem talað er og skrifað.

Vísindamenn greina frá því sem þeir vita best um hræringar í jörðu, halda sig við þær staðreyndir sem þeir bestar vita og upplýsa okkur um hvað sé hugsanlegt að geti átt sér stað, segjast ekki vita allt, en tjá sig um málin eftir þeirri bestu vitneskju sem þeir hafa.

Það raskar ekki ró þeirra þótt fólk hiti sér við prímusa, gisti í tjöldum og óski sér og sínum alls hins besta og voni og þrái að fá ástvini sína til landsins sem leyfir fólki að tjalda á flötinni fyrir framan þrashúsið við völlinn.

Það eru aðrir sem ærast, s.s. utanríkis- og dómsmálaráðherrann sem vita fátt verra en ,,hörmung“ þá sem þeir sjá á Austurvelli.

Tjaldbúarnir hafa líklega ekki frétt af því að stjórnendur landsins sem þeir eru komnir til, virðast vita fátt um náttúru landsins sem þeir stjórna og jafnvel enn minna um fólkið sem býr þar og kýs þá til starfa.

Og að sumt af þvi fólki sem í landinu býr hefur orðið að koma sér fyrir þar sem það gat komið sér fyrir, en ekki þar sem það vildi endilega vera, eftir að hafa flúið byggðina sína vegna náttúruhamfara,

Því gera tjaldbúarnir sér ef til vill þá von, að þeirra vandi verði leystur.

Þó ekki væri nema til þess, að menn geti þá slegið um sig og sagt:

Þetta gerðum við þó! Sjáið þið bara!

Hvort óskin er raunhæf og hvort eitthvað verður gert af hálfu stjórnvalda í málum Grindvíkinga frekar en þeirra sem í tjöldunum búa, er ólíklegt sem stendur, enda álagið mikið og flækjustigið hátt, auk þess sem málið þarf að greina og meta, setja í nefnd og þaðan í ráð og síðan til yfirnefndar og þaðan…..

Sagt er að vandamálin séu til að leysa þau, en þegar svo er komið að lausnin er sjálf orðin vandamál, þá er ekki von á góðu.

Færðu inn athugasemd