Veislur, vinnumarkaður, sendiráðavandi o.fl.

Það er ,,blámi“ yfir frásögn Morgunblaðsins af borgarstjóraskiptunum í Reykjavík, einu ,,borginni“ sem við eigum. Veislur eru taldar, sumir eru ekki boðnir, a.m.k. ekki í þær allar, því er málið dálítið ,,súrt“ – fyrir suma.

Okkur grunar hverjir það geti verið sem ekki fá og finnum til með veisluþyrstum að missa af gleðskapnum.

Hvort sá siður verður tekinn upp, að bjóða pólitískum andstæðingum í gleðskap, þegar og ef, Sjálfstæðismenn komast til valda í borginni, kemur í ljós ef pólitísk umskipti af því tagi verða í þessari einu ,,borg“ okkar Íslendinga.

Borg er á Mýrum og ,,borgir“ eru víðar og verði haldin gilli út í mýri, eða á holti, þá skal verða munað eftir Sjálfstæðismönnum sem öðrum, af þeim sem þetta ritar!

Í blámann setti ritari einnig grein, sem er um hugmyndina að þjóðarsáttinni sem svífur yfir vötnum í samningaviðræðum á vettvangi vinnumarkaðarins. Fannst það viðeigandi sé tekið mið af stöðunni í þjóðfélag þar sem ,,bláminn“ ræður ríkjum undir forystu Vinstri grænna!

Illa gengur að finna sendiherra Bandaríkjanna stað til að búa á, en hann mun vilja vera í Vesturbæ Reykjavíkur.

Rússneska sendiráðið er, eins og margir vita í Vesturbænum, þó engin sé í því sendiherrann. Hvort það er vegna nálægðarinnar við þann rússneska – þ.e.a.s. þegar og ef hann kemur til baka eftir brottreksturinn – sem sá bandaríski sækir í vesturbæinn, eða það er hin ramma taug sem togar, er ekki gott að segja. Bandaríkin eru líka vestar en Ísland svo vel getur verið að ástæðan sé sú að manninn langi heim og lái honum hver sem vill.

Hvort það er vegna þessarar stöðu sem úrræðaleysi ríkir hjá ríkisstjórninni um afgreiðslu mála hjá landflótta Grindvíkingum skal ekki fullyrt, en vel getur verið að málið liggi þungt á þeim sem í ríkisstjórninni sitja.

Vel getur verið að svo illa sé komið málum innan stjórnsýslunnar, að ekki sé hægt að taka ákvarðanir um nokkurn skapaðan hlut, vegna flækjustiga á sviðum og í geirum í stjórnkerfinu, svo notuð séu orð sem heyrst hafa. Engin lausn finnst alla vega á vanda Grindvíkinga og ákvarðanatökufælnin varðandi vandræði þeirra er algjör að því er virðist.

Til hamingju Eimskip!

,,Óskabarn þjóðarinnar“ er orðið 110 ára og ótrúlegt til þess að hugsa að ekki sé nema rúm öld síðan fátæk þjóð sem þá var, tók sig saman um að koma á fót skipafélagi til millilandasiglinga með varninginn að heiman og heim.

Fátt er meiri nauðsyn eyþjóð út í miðju reginhafi, en að vera vel búin til samgangna, hvort sem er til austurs eða vesturs.

Eimskip var stofnað fyrir einni öld og tíu árum betur og nafnið vísar í þá véltækni sem var ríkjandi á þeim tíma sem það var stofnað. Í kjölfarið komu svo önnur skipafélög til sögunnar s.s. Skipadeild Sambands íslenskra samvinnufélaga og fleiri sem kennd voru við jökla, ár, landshluta og víkur svo nokkur dæmi séu nefnd.

Sagt er frá þjófnaðarmáli, sem átti sér stað á Raufarhöfn fyrir 74 árum í Morgunblaðinu. Farið er yfir sögu málsins, þ. e., þann hluta sem vitað er um, en eins og áður var sagt, þá er málið óupplýst og ef einherjir vita eitthvað um hvernig það var raunverulega, þá væri fróðlegt að fá að heyra eða sjá hvernig það var. Líklegt er þó að enginn sé nú á fótum sem eitthvað veit með fullri vissu og því er trúlega um að ræða mál sem menn geta velt fyrir sér án þess að komast að niðurstöðu um hvernig það var í pottinn búið svo lengi sem þeir vilja, ef hugur stendur til!

Færðu inn athugasemd