Kindakjöt og kjúklingakjöt

Í Heimildinni er fjallað um íslenskan kjötmarkað undir fyrirsögninni: ,,Íslendingar eru orðnir kjúklingaþjóð“ í þeim skilningi, að neyslan á þeirri kjöttegund sé mest.

Fréttina skrifar Georg Gylfason blaðamaður og henni fylgir graf þar sem hægt er að sjá stöðuna í kjötmarkaðnum.

Þar kemur fram að framleiðsla á kjúklingakjöti hafi farið fram úr því sem framleitt er af kindakjöti og að það hafi fyrst gerst árið 2022 og að því gefnu að það sé rétt, þá er ekki um alveg nýja frétt að ræða.

Hvað sem því líður, þá er frásögnin athyglisverð og í henni koma fram áhugaverðar upplýsingar eins og t.d.:

 ,,Samkvæmt gögnum á vef Hagstofunnar var samanlögð framleiðsla á alifuglakjöti 9.501 tonn árið 2022 og var það um 842 tonnum meira en ársframleiðsla á kindakjöti. Framleitt magn af kindakjöti var 8.659 tonn á sama ári.

Mælingar Hagstofunnar á kjötframleiðslu síðasta árs ná út nóvembermánuð. Frá janúar til nóvember 2023 var samanlögð framleiðsla á alifuglakjöti rúmlega 8.955 tonn, á meðan magn af kjöti af slátruðu sauðfé var 8.402 tonn.“ 

Það vekur athygli að rætt er um ,,kindakjöt“ en ekki lambakjöt, þannig að gera má ráð fyrir að um sé að ræða heildarmagn kjöts sem til fellur af sauðfé, þ.e. slátrun lamba að hausti, að viðbættu því sem kemur af fullorðnu sauðfé.

Eins og gera má ráð fyrir að flestir viti þá er kjúklingakjöt af ungviði eingöngu.

Í frásögninni segir ennfremur:

,,Í tilkynningu frá Hagstofunni segir að kjötframleiðsla í nóvember 2023 hafi verið tíu prósent minni en í nóvember 2022. Framleiðsla á kjöti af nautgripum, alifuglum og svínum dróst saman um nokkur prósent milli mælinga. Mesti samdrátturinn er þó í sauðfjárslátrun. Í nóvember í fyrra var aðeins slátrað 135 gripum samanborið við 6.281 í nóvember 2022.“

Af þessu sést að slátrun sauðfjár hefur verið að mestu lokið þegar komið var fram í nóvember.

Einnig kemur fram kemur í fréttinni, að sala á svínakjöti hafi aukist mikið en að kjúklingurinn sé vinsælasta kjötið, þá komi lambakjötið og þar næst svínakjötið.

Þegar farið er að segja frá styrkjum til framleiðslunnar skilur verulega á milli.

Þriðjungur tekna sauðfjárræktarinnar eru styrkir frá hinu opinbera.

En síðarsegir í greininni sem hér er vitnað til að þegar allt sé talið, þá segir að tekjur sauðfjárræktarinnar séu (aðrar en ríkisstyrkir?) um helmingur teknanna, eða um ,,31 milljarður króna“.

Þetta gengur ekki alveg upp og þarfnast nánari skoðunar.

Þegar farið er yfir hvað þurfi til að koma, svo hægt sé að fá þessa ríkisstyrki, þá kemur fram að uppfylla þarf ýmis skilyrði:

,, Til þess að fá slíkan stuðning þurfa sauðfjárbændur að uppfylla ákveðinn skilyrði sem lúta að aðbúnaði sauðfjár, fóðrun, heilsu skepnanna, sjálfbærni í landnýtingu og fleira þvíumlíkt“. 

Og áfram:

,,Árið 2022 voru þessar svokölluðu gæðastýringargreiðslur rúmlega þriðjungur  af heildarupphæð ríkisstuðnings til sauðfjárbænda. Á síðastliðnum þrem árum námu greiðslur af þessu tagi um 5,5 milljörðum króna. Hins vegar var engu eftirliti sinnt með sauðfjárbændum sem þáðu gæðastýringargreiðslur árið 2022.“ 

,,[…] þingmenn, fræðimenn, starfsmenn opinbera stofnanna eins og Landgræðslan [hafa] gagnrýnt gæðastýringarkerfið. Þá sérstaklega þann þátt sem snýr að landnýtingunni. Til [að] mynda sagði Landgræðslan í umsögn til Alþingis að tækifæri til þess að draga úr nýtingu á illa förnu landi hafi ekki verið nýtt af mörgum sem tekið hafa við gæðastýringargreiðslunum undanfarin ár.

Niðurlag greinarinnar í Heimildinni er síðan:

,,Þar af renna 600 milljón krónur í svokallaðan ungbændastuðning, sem skipt er á milli 181 bænda sem sóttu um nýliðunarstuðning á árunum 2017 til 2023. Þá fara 450 milljónir í viðbótafjárfestingarstuðning til bænda í sauðfjárrækt og nautgriparækt. Meirihlutinn af þessum stuðning rennur þó til 239 bænda sem stunda nautgriparækt, samtals 386 milljónir.

Þá fá sauðfjárbændur sem eiga 300 eða fleiri veturfóðraðar kindur greitt sérstakt framlag sem samtals nemur 450 milljónum króna. Snemma á þessu ári fá kúabændur sem stunda mjólkurframleiðslu um 500 milljón krónur í viðbótargreiðslur og kúabændur með holdakýr fá 100 milljón krónur.“

Af þessu má sjá að rekstrarumhverfi búgreinanna, sem hér eru bornar saman, er gjörólíkt.

Kjúklingabúskapurinn er rekinn sem venjulegur atvinnurekstur, en sauðfjárræktin sem búgrein sem stendur á gömlum merg og sem haldið er uppi með almannafé.

Það sem neytendur greiða fyrir kindakjöt í verslunum er einungis hluti af andvirði vörunnar en ekki heildarverð hennar.

Afgangurinn er greiddur af ríkissjóði og því má með nokkrum sanni segja að um ríkisrekstur, að hluta til, sé um að ræða og að samkeppnisstaðan á markaðinum sé verulega brengluð.

Færðu inn athugasemd