Runninn er upp síðasti dagur ársins og á morgun tekur við nýtt ár með nýjum áskorunum, vonum og væntingum.

Ritari er ekki staddur í landi sínu á þessu tímabili hátíða og tímamóta og það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem það gerist.
Því verður honum hugsað til þeirra sjómanna, flugmanna og annarra sem starfa sinna vegna, geta ekki verið heima hjá sér á þessum tíma frekar en ýmsum öðrum tímum.
Það eru ótal stéttir sem ekki geta verið í fríi á rauðum dögum og við hugsum til fjölskyldna þeirra og vina og óskum þeim og öðrum, alls hins besta á árinu sem við tekur.
Í íslenskum fréttamiðlum má lesa að að ástandið sé ekki nema í meðallagi gott og jafnvel þar fyrir neðan.
Á Íslandinu góða, hefur verið tekið eftir, að brúnin er farin að þyngjast á ráðherranum sem skipti um embætti á dögunum; hætti að vera fjármálaráðherra og gerðist utanríkisráðherra og sagt er að það sé ,,pabba“ að kenna, eða þakka, ef menn vilja heldur hafa það þannig.
Umskiptin eru ekki endilega slæm, nema menn vilji líta þannig á málið!
Utanríkispólitík Íslands var komin í öngstræti að sumra áliti og gott ef Bjarni var ekki farinn að hleypa meira í brýrnar en verið hafði, svo ef til vill er bara ágætt að breyta til, breytast úr riddara yfir í biskup eða öfugt, nú eða hugsa það einhvern veginn öðruvísi, ef menn kjósa svo.
Utanríkispólitík ríkisstjórnarinnar var komin í öngstræti sem m.a. lýsti sér í, að stjórnmálasamband við þjóð sem reynst hafði vel í samskiptum við íslenska þjóð, var nánast rofið í vanhugsuðu fússi og til þjónkunar við frekar vafasaman mannskap, sem dundað hefur sér til útrásar, að hrella saklaust fólk á landsvæði sem samið var um að yrði svokallað ,,sjálfstjórnarsvæði“ fyrir rétt tæpum áratug síðan.
Vonandi lýkur erjum þessara grannþjóða sem allra fyrst, því manndráp og eyðileggingar þjóða og einstaklinga á milli, viljum við ekki hafa né þurfa að sjá.
Því miður virðist sem þar sé enginn sýnilegur endir á og fyrir og yfir jólahátíðina og eftir og eflaust í komandi framtíð, munum við þurfa að horfa upp á stöðugt framhald á ofbeldisaðgerðum þjóða á milli og reyndar einstaklinga líka.
Stjórnmálaástand í landinu okkar skiptir máli, en það skiptir okkur sem aðra líka máli, hvernig staðan er í öðrum löndum heimsins.
Hjá verndurum vorum, dregur senn til forsetakosninga og baráttan er byrjuð.
Kostirnir eru tveir enn sem komið er og synd væri að segja, að um endurnýjun sé að ræða og tóri þeir karlar fram yfir kosningar, verður ekki hægt að tala um nýtt vín á nýjum belgjum á þeim vettvangi.
Annars er sú pólitík og lóðaríið á þeim velli, af því tagi að vart er hægt um að fjalla, því úrvalið er takmarkað og vínið á belgjunum farið að súrna verulega, svo ekki sé meira sagt.
Í Palestínu herja Ísraelar á granna sína af ómældri heift og það svo að líklegt má telja að hún jafnist við þá hörmung, sem Gyðingaþjóðin þurfti að þola á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar, sem svo er kölluð.
Vonandi stendur sú nafngift – þ.e. seinni heimsstyrjöldin – og breytist ekki í aðra af þremur eða fleiri, því á þessum tímamótum dagatalsins, er því miður ekki hægt að fagna því, að friðlegt sé með besta móti í heiminum.
Vonum samt hið besta og að brúnin á Bjarna fari að lyftast en ekki síga og að ef þörf reynist, að boðað verði til nýrra kosninga í landinu okkar og ef svo fer:
Að þá gangi þær vel og án Borgarnes- ævintýra við atkvæðtalningu!
Með óskum um gleðilegt og farsælt nýtt ár, hver og hvar sem þið eruð og von um bjarta og friðsæla framtíð fyrir okkur öll!

Færðu inn athugasemd