
Tveir Framsóknarmenn með Sjálfstæðismann að við teljum, á milli sín.
Maðurinn til vinstri telur að byggja þurfi upp til að afla orku og segir það vera ,,nauðsynlegt til framtíðar“.
Sá sem við höldum vera Sjálfstæðismann skrifar um ,,aparólur á Hellisheiði“, en konan sem er til hægri á þessari mynd ritar um orku sem hún segir vera burðarás í sókn til betri lífskjara og forsendu fyrir ,,vinnu, vöxt og velferð“.
Í aparólugreininni er sagt frá því að rætt hafi verið við tvo menn í ,,Dagmálum“ – netvarpsþætt Morgunblaðsins – um orkumálin.
Hödundur greinarinnar þar sem rólan fyrrnefnda kemur við sögu, segir að viðmælendur þáttarins, þeir Stefán Pálsson og Þórður Gunnarsson hafi ,,báðir sérstaka innsýn í orkugeirann og eru báðir sérstakir trúnaðarmenn stjórnmálaflokka til vinstri og hægri“.
Þann fyrrnefnda teljum við vera Vinstri grænan og gerum því ráð fyrir að hin sérstaka sýn hans sé vissulega sérstök, því eins og kunnugt er þá er það stefna Vg- inga að best sé að virkja án þess að virkja og nota rafmagn án þess að nota rafmagn.
Við hin sem hugsum grunnt og vitum fátt, skiljum þessi vísindi frekar illa, en lifum í voninni um að uppljómunin komi yfir okkur, svo við getum notið og lifað í sælunni.
Höfundur greinarinnar segir síðan:
,,Báðir gagnrýndu hið svifaseina kerfi þar sem flóknar framkvæmdir festust í flóknara regluverki, en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að auki illa afmörkuð.
Það er vægt til orða tekið; nefndin var að vísa frá kæru vegna aparólu á Ísafirði, en fjallar næst um vindorku á Hellisheiði. Tók á sama fundi fyrir háreysti frá pílukastsbúllu og skógrækt í Gilsfirði, en öðrum Suðurnesjalínu II og skúr í Aratúni!“
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur sem sagt ýmislegt á sinni könnu og við gerum ráð fyrir að djúpt sé hugsað, vegið og metið og síðan vitanlega tekið við nefndarsetulaunum að lokum.
Minna má það nú ekki vera!
Í grein menningar og viskiptaráðherra er m.a. bent á að:
,,Orkuöflun hefur verið burðarás í íslenskri lífskjarasókn en orkuframkvæmdir fortíðar hafa reynst heilladrjúgar fyrir þjóðfélagið, en samhliða aukinni orku- og verðmætasköpun í samfélaginu hefur íslenskt samfélag farið úr því að vera eitt fátækasta ríki Evrópu í eitt það ríkasta.“
Í lok greinar ráðherrans er síðan sagt að:
,,Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér, það þarf að hafa fyrir því að búa þau til, í sátt við náttúru og menn. Á Íslandi hefur vinna, vöxtur og velferð samfélagsins haldist hönd í hönd við nýtingu orkuauðlinda landsins. Okkur hefur vegnað vel í þeirri sjálfbærri nýtingu og á þeirri braut eigum við að halda áfram.“
Allt er þetta skýrt og rétt hjá ráðherranum og án vatnsaflsvirkjana og virkjunar jarhitaorkunnar væri íslenskt þjóðfélag illa statt og hefði við önnur og meiri vandamál að glíma en þau sem eru í dag.
Við þurfum að leggja það niður fyrir okkur hvert við viljum halda sem þjóðfélag; viljum við stöðva vöxtinn núna með vinstrigrænum hætti og gefa framtíðina upp á bátinn, eða viljum við halda áfam að þróa íslenskt framtíðarþjóðfélag á þann veg að þjóðin njóti gæða landsins, í aparólum, ef menn kjósa svo, eða á ýmsan annan hátt?
Okkar er valið og kostirnir eru tveir: Framfarir, stöðnum eða afturför.

Færðu inn athugasemd