Orkumálin: Leki eða ekki leki og hlýjan ómetanlega.

Forstjóri Landsvirkjunar skrifaði gein í Morgunblaðið á dögunum, þar sem hann sagði frá því að um væri að ræða rándýran leka á raforku, en í greininni byrjar hann á að minna á hve vel við erum sett varðandi orku og segir m.a.:

,,Við Íslend­ing­ar höf­um byggt upp öfl­ugt orku­kerfi sem er ein­stakt í heim­in­um, með sína 100% end­ur­nýj­an­legu orku. Lyk­ill­inn að því hef­ur verið að geta keppt á alþjóðleg­um orku­markaði og laðað þannig hingað til lands öfl­ug fram­leiðslu­fyr­ir­tæki í orku­frek­um iðnaði. Það skil­ar sér nú í um­tals­verðum arðgreiðslum Lands­virkj­un­ar, orku­fyr­ir­tæk­is þjóðar­inn­ar, í sam­eig­in­lega sjóði.

Hann bendir á að almenningur hafi notið góðs af uppbyggingunni, en eins og flestir munu vita, er það trúlega einstakt að hafa aðgang að hreinni endurnýjanlegri orku sem á uppruna sinn í iðrum Jarðar og úr fallvötnunum.

Þjóðin hefur borið gæfu til þess að virkja þau sér til hagsbóta um langan tíma og ekki má heldur gleyma því, að vindurinn var nýttur með vindmyllum fyrir löngu.

En það eru ljón í veginum, því orkumarkaðurinn ,,lekur“ og Hörður Arnarson útskýrir það á eftirfarandi hátt:

,,Það sem er átt við með því er að nú þegar ekki er til nein auka­orka í kerf­inu, er hætta á því að stór­not­end­ur orku (sem eru skil­greind­ir sem öll fyr­ir­tæki sem nota meira en 10 MW), hvort sem er ný eða göm­ul fyr­ir­tæki, sæki orku inn á smá­sölu­markaðinn. Það er að segja í þessi 20% raf­orku­fram­leiðslunn­ar sem heim­ili og smærri fyr­ir­tæki nota. Ef ekk­ert verður að gert get­ur sú raf­orka sem ætluð er heim­il­um og smærri fyr­ir­tækj­um þurrk­ast upp. Þegar hún er ekki leng­ur til staðar get­ur það leitt til al­gers kerf­is­hruns.

Við vorum rétt byrjuð að innbyrða þetta þegar önnur grein birtist þar sem rætt er við forstjóra HS Orku, Tómas Má Sigurðsson, sem heldur hinu gagnstæða fram og spurning vaknar eftir lesturinn, hvort skýringin geti verið að markaðssetning fyrirtækjanna sé ekki sú sama.

Landsvirkjun rekur sína starfsemi vítt um landið og fram hefur komið að allskyns flöskuhálsar eru í kerfiinu eins og t.d háspennulínur sem rísa ekki undir því að flytja þá orku sem þarf milli landshluta.

Það ætti flestum að vera ljóst að í sístækkandi þjóðfélagi er þörf fyrir aukna orkuöflun til að fullnægja stækkandi markaði, en þar stendur hnífur í kú, þvi eins og fjölmörg dæmi sanna, þá gengur illa að fá heimildir til uppbyggingar orkumannvirkja.

Allir vita hvernig gengur að ná því fram, að virkja megi í neðri hluta Þjórsár og er þar nýlegt dæmi um, hnúturinn sem virkjunaráform um fyrirhugaða Hvammsvirkjun er í.

Þá má einnig til taka nær endalaust þref um línulagnir á Norðurlandi og víðar s.s. Suðurnesjum.

Það hefði verið gott ef fengist hefði að leggja nýja línu þar á sínum tíma og eiga þar með styrkara dreifikerfi til að takast á við það sem gengur þar á núna.

Fyrir nú utan, að það er ekki boðlegt að ráðandi menn sem takmarkaða þekkingu hafa á rafeðlisfæði, skuli í sífellu slá um sig með því að best sé að leggja háspennulínurnar í jörð.

Rétt er að ljúka þessu með ósk um að ,,Eyjólfur hressist“, að ráðamenn nái áttum og leggi við hlustir þegar menn með þekkingu eru að benda þeim á og ráða þeim heilt, um hvað sé þörf fyrir að gera og hvað sé hægt að gera.

Að síðustu eru hér skjáskot af frétt um að til standi að skattleggja skemmtiferðaskip sem koma til landsins. Vonandi verðu það gert af þeirri hófsemi, að þau hætti ekki að koma og ,,leki“ af þeim markaði sem nýtur þeirra núna!

Það eru sem sagt víða matarholurnar fyrir skattheimtuna og ekki aðeins líkgeymslurnar sem hægt er að nýta sér í þeim efnum!

Að allra síðustu er svo frásögn af konu einni sem nýtti sér eigin líkamshita til orkuöflunar. Við vitum það allir sem konur eigum, hve mikilli hlýju getur stafað frá þessum yndislega helmingi mannkynsins, en í frásögninni kemur fram að sú hýja er ekki eingöngu bundin við andlegu hliðina.

Eins og við svo sem, vissum líka!

Færðu inn athugasemd