Á þriðja í jólum 2023: Bóndi er bústólpi og bú er landstólpi

Áður fyrr ímynduðu menn sér landið okkar dálítið öðruvísi en það síðan reyndist vera og svo dæmi sé tekið, þá er Reykjanesskaginn ekki sýndur hér eins og við eigum að venjast.

Samt er hann þarna á myndinni og svo er enn í raunveruleikanum og hann lætur á sig minna svo sem flestum mun vera kunnugt.

Hugur okkar er hjá því fólki sem hefur þurft að flýja heimili sín og horfa upp á húsin og bæinn sinn sprungum skorinn. Enginn veit hvenær umbrotahrinunni lýkur en við vonum það besta og að henni ljúki sem fyrst, svo að fólkið geti komist til heimila sinna og geti hafið aftur fyrri stör og að lífið falli í sitt fyrra far.

Bændablaðið kom út á dögunum og líkt venju er þar komið víða við og hér verður skoðað sumt af því sem þar mátti sjá.

Formaður Bændasamtakanna ritar forystugrein í blaðið og við sjáum að hann vonast eftir því að samstaða hópsins, sem hann stendur fyrir muni ,,halda“ og við sem þekkjum dálítið til þessa vettvangs vitum að þannig þarf það að vera.

Annars mun ganga illa að knýja á um raunhæfar lausnir.

Landbúnaður er margskonar og við verðum að muna það og forðast að setja eina grein landbúnaðarins eða fleiri ofar öðrum, líkt og var í fyrri tíð og er jafnvel enn.

Það er vandi í búgreinunum flestum ef ekki öllum og hann er ekki allur eins. Vandi sauðfjárræktarinnar er svo dæmi sé tekið, ólíkur vanda svínaræktarinnar, alifuglabúskaparins, nautgriparæktarinnar og þannig mætti áfram telja.

Sauðfjárræktin glímir við riðusjúkdóm í fénaðinum, en sem betur fer á afmörkuðum svæðum.

Vonir standa til að hægt verði að rækta sjúkdóminn út úr stofninum, en þar þarf margt að athuga, s.s. Sigurður Sigurðarson dýralæknir bendir á í grein sinni hér að neðan, undir yfirskriftinni: Breytið ekki strax um aðferð.

Grein Sigurðar er hér fyrir miðju, til vinstri er grein eftir sauðfjárbónda, en til hægri ritar bóndi sem býr með kýr, kindur og hesta. Hann leggur áherslu á að bændur þurfi að búa við sambærilegan ,,efnahagslegan veruleika“ og aðrar stéttir í landinu og væri það nú sannarlega gott ef svo gæti orðið!

Sigurður Sigurðarson dýralæknir, varar við of miklum væntingum varðandi sigur í baráttunni við riðu í sauðfé í grein sinni og trúlega er rétt að leggja við hlustir þegar fagmaður með mikla reynslu líkt og hann, kemur með faglegar ábendingar.

Þegar skref eru stigin, þá er gott að vita hvert undirlagið er. Það er nefnilega ekki alltaf nóg að vita hvert menn vilja fara!

Að lokum eru það greinar eftir svínabónda í Eyjafirði sem staðnæmst er við í þessum jólapistli. Greinar Ingva eru tvær, sú til vinstri fjallar um fjárhagsserfiðleika fjölskyldubúa, en í þeirri sem er fyrir miðju er harðari tónn. Við sjáum svo að pólitíkin er hér hægra megin við greinar Ingva Stefánssonar.

Þar er fullyrt að stjórnvöld standi með bændum, en að bóndi sé það sama og bóndi í augum pólitíkusa nútímans, frekar en fortíðarinnar er sannarlega ekki víst!

Við lestur greinar Ingva Stefánssonar birtist gamall vandi sem við er að glíma innan bændasamtakanna, en þó jafnvel enn frekar á vettvangi stjórnmálanna.

Það er nefnilega þannig og hefur verið alla tíð að greinar landbúnaðarins eru misjafnlega virtar af ráðandi öflum í samfélaginu og til að mynda er Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn, með því marki brennd, að svo er að sjá sem þar sé landbúnaður fyrst og fremst sauðfjárrækt og kúa og þá í þeirri röð, en garðyrkja, alifuglarækt, svínarækt o.s.frv. eru ekki eins ofarlega í þeirra huga, svo ekki sé minnst á kornrækt o.s.frv.

Sé þetta rangt metið, þá er tímabært að stjórnmálamennirnir láti verkin tala og sýni fram á að svo sé!

Þar til það sannast verður því haldið fram að stjórnmálin þurfi að komast upp úr þessu þrönga fari.

Hvort og hvenær það verður er ekki gott um að segja, en við leyfum okkur að vona að þar á bæ þokist fólk í átt til nútímans, en til að því verði trúað verða gerðir að fylgja orðum.

Færðu inn athugasemd