Eldgosið og fleira

Í Morgunblaðinu sjáum við mynd af eldgosinu á Reykjanesi.

Rætt er við jarðeðlisfræðing sem segir okkur að við verðum að venjast ,,tíðum“ gosum, eins og þar stendur.

Hugurinn er hjá Grindvíkingum sem ekki komast til síns heima í aðdraganda stórhátíðarinnar, en við vitum að allt tekur enda, en hvenær það verður veit enginn.

Við teljum okkur þekkja þann sem er að skreyta jólatréð, en tilefni teikningar Halldórs mun vera glæný úthlutun sendiherrastöðu, sem af einhverjum ástæðum gleymdist að auglýsa.

Að það verði gert úr þessu er frekar ólíklegt, en lengi er von á einum eins og þar stendur, svo við bíðum spennt eftir framhaldinu!

Mynd úr Morgunblaðinu

Það þarf að skerða orku til stórra orkunotenda af ástæðum sem flestir kannast við og það má ekki virkja nema hægt sé að gera það án þess að velta steinum eða bylta um þúfum.

Við búum svo vel að hafa þúfnavini allt í kringum ríkisstjórnarborðið fræga, en það er þeirrar náttúru að teygjast og togast eftir því hvernig liggur á fólkinu við borðið.

Það hefur togast í átt til glötunar að undanförnu, auk þess sem fólk hefur fundið hjá sér þörf fyrir flakk til Abu Dabí, líklega til að leita að Ali Baba, sér til halds og trausts.

Enn úr Morgunblaðinu

Lög um virkjanir vatnsfalla eru með þeim eindæmum að fasteignagjöld greiðast eingöngu til þess sveitarfélags sem stöðvarhús virkjunarinnar stendur í.

Eins og margir vita, eru virkjanamannvirki þess eðlis að uppistöðulón, stíflumannvirkin og fleira hefur áhrif beggja megin vatnsfalla sem virkjuð eru.

Því er það sem happdrættisvinningur að fá stöðvarhúsið ,,sín megin“ ef svo má segja og það svo að meðan sveitarfélag t.d. vestan ár, hefur litlar sem engar tekjur af mannvirkjunum, þá rakar það sem austan er upp peningum.

Nú eru sveitarfélög farin að spyrna fótum gegn þessu augljósa óréttlæti og er það löngu tímabært.

Færðu inn athugasemd