Bitið í Biden

Maðurinn sem gerði það svo ljómandi gott í Úkraínu er til umfjöllunar hjá Fréttastofu Ríkisútvarpsins, þar sem vitnað er til erlendra miðla, s.s. BBC, CNN og N.Y.T.

Þar kemur fram að hann hafur komið við víðar og við bætist Kína.

Við sem týnum einu og öðru og jafnvel stundum sjálfum okkur, finnum dálítið til með manninum sem virðist vera ósköp venjulegur að sjá sé tekið  mið af myndunum sem birtar eru með fréttinni.

Hunter þessi hefur viða komið við en einna mest hefur verið fjallað um bras hans í Úkraínu, þar sem hann er sagður hafa reynt fyrir sér í einhverskonar líftæknibrasi, sem venjulegur vélfræðingur og meðaljón kann ekkert að segja frá.

Hvort það var þar sem dularfull fartölva mannsins kom við sögu er ekki gott að segja, því lítið hefur verið sagt frá nær endalausum ,,rannsóknum“ á því ágæta raftóli.

En eins og segir í tilvitnaðri frétt, þá er nú svo komið að til stendur að ákæra manninn fyrir skattalagabrot, þ.e.a.s. að hann hafi skotið einhverju undan skatti.

Að auki mun bíða hans ,,ákæra fyrir vopnalagabrot“ eins og sjá má á myndskotinu sem tekið er af vef Rúvsins, svo sjá má að maðurinn kemur víða við.

Við Íslendingar látum okkur ekki bregða við tal um svoleiðis enda ókrýndir heimsmeistarar í greininni að eigin áliti.

2023-12-08

Gera má ráð fyrir að þetta sé dregið fram vegna komandi forsetakosninga í heimsveldinu fyrir vestan og verður að segja, að það er frekar óheppilegt fyrir Biden gamla Jó sem þrátt fyrir háan aldur sækist eftir því að fá að vera forseti nokkur ár í viðbót.

Karlinn er orðinn töluvert við aldur, eins og áður sagði og þó einkanlega sé  tekið mið af keppinautnum Trump hinum trompaða – en ekki slompaða -, sem er nokkrum árum yngri og betur á sig kominn líkamlega að sjá.

Fátt er hægt að segja um andlegu hliðina á þessum gömlu baráttujöxlum, en Biden berst við að standa í fæturna, koma hundinum í öruggt athvarf, gæta stráksins strákslega, hafa uppá tölvunni og klappa Zelensky á kollinn og vangann. 

Þetta síðastnefnda þykir karli vera orðið frekar leiðigjarnt og tilbreytingarlítið í seinni tíð, því óskalistinn er alltaf sá sami: meira dót meiri peninga og bara meira af öllu!

Mikill vill meira, segir íslenskt orðtak og virðist það eiga nokkuð vel við hér, en Biden er líklega orðinn dálítið leiður á að vera sífellt minntur á það sama æ ofan í æ og síðan bætist þetta við með strákinn, sem reyndar er ekki strákur lengur, en hvað með það, sumir eru bara svo lengi að ná þroska.

Hvernig fer með komandi forsetakosningar er ekki gott að segja, en ekki er það vænlegt til ávinnings að vera kærður fyrir skattalagabrot í guðs eigin landi og ekki líklegt að meint brot stráksins, sem ekki er strákur lengur, verði föðurnum til framdráttar í framboðsbröltinu.

Og þar sem Trump hinn trompaði komst upp með ýmislegt, því þá ekki hinn glæsilegi og lífsreyndi vonarprins þjóðar sinnar, pabba síns og mömmu og hundsins hundslega sem fluttur var í útlegð?   

Færðu inn athugasemd