Á vef Wikipedia er hægt að lesa eftirfarandi upplýsingar:
,,Sjómannaskólinn í Reykjavík var kennslustofnun sjómanna sem starfaði fyrst við Öldugötu í Reykjavík (Gamli stýrimannaskólinn) og síðan við Háteigsveig í Reykjavík. Sjómannaskólinn og síðar Vélskóli Íslands höfðu aðsetur við Háteigsveg, en þann 1. ágúst 2003 tók Menntafélagið ehf við rekstri skólanna og starfa þeir núna sem Tækniskólinn. Stýrimannaskólinn í Reykjavík var stofnaður með lögum hinn 22. maí 1890 en skólinn tók til starfa haustið 1891. Vélskóli íslands var stofnaður 1915.
Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson húsameistari teiknuðu hús Sjómannaskólans við Háteigsveg. Lagður var hornsteinn að byggingunni á sjómannadaginn 4. júní 1944 og var skólinn vígður árið 1945. Í blýhólki þeim sem lagður var í hornsteininn liggja uppdrættir hússins og meginatriði að byggingarsögu skólans, skráð á skinn. Veðurstofan hafði aðsetur í skólanum til ársins 1973 en hluti Veðurstofunnar flutti síðan út á Reykjavíkurflugvöll í ársbyrjun 1950. Kennaraháskóli Íslands hafði hluta hússins til afnota um tíma.“
Sé smellt á tengla sést t.d. að Sjómannaskólinn er á lista yfir friðuð hús í Reykjavík.
Fáum mun blandast hugur um, að byggingin er glæsilegur vitnisburður um það hverjum augum þjóðin leit til sjómannastéttarinnar þegar hornsteinninn var lagður að byggingu hússins á sjómannadaginn þann 4. júní árið 1944.

Á þessum tíma gerði fólk sér grein fyrir því, að helsta vonin til að hægt væri að byggja upp og treysta grundvöll þjóðarinnar var sú, að efla undirstöðuna.
Þá voru það auðæfin sem fólust í sjónum sem treyst var á sem slíka undirstöðu.
Ásamt því að tryggja yrði, að þjóðin ætti til menntaða sjómenn til að færa varninginn að heiman og heim.
Í fátækt sinni að lokninni heimsstyrjöld, sem tekið hafði drjúgan toll af sjómannastéttinni og fleirum var ákveðið að byggja framtíðarhúsnæði sem notað yrði til menntunar sjómannastéttarinnar, loftskeytamenn, stýrimenn og vélstjóra.
Veðurstofan fékk inni í byggingunni sem glittir í lengst til hægri á myndinni og ritari man t.d. eftir því, að þegar hann stundaði nám í skólanum voru meinatæknar með aðstöðu fyrir hluta af sínu námi í húsi austan við bygginguna fögru sem hér er til umræðu.
Byggingin sem meinatæknarnir og Veðurstofan höfðu aðstöðu í á þeim tíma, mun hafa verið byggð fyrir vélasal Vélskólans, þ.e. fyrir verklega kennslu í vélfræði, en m.a. þangað, hefur fólk getað komið á hinum árlega ,,Skrúfudegi“ þess skóla, sem reyndar er opið hús alls Sjómannaskólans.
Nú er öldin önnur og menn hafa fundið það út að best sé að leggja skólahaldið sem fram fer í þessu húsnæði niður og finna því stað einhversstaðar annarstaðar.
Ástæðan er væntanlega sú, að menn hafa komist að þeirri niðurstöðu, að sjómenn megi mennta ,,hist og her og einhverstaðar“, en menn sem brotið hafa af sér skuli fá afgreiðslu sinna mála í hinum gamla Sjómannaskóla.
Menntun lögfræðinga mun fara fram í Háskóla Íslands og víðar og því má álíta, að eðlilegra væri að dómstörf færu fram í grennd við þá stofnun.
Það er samt ekki niðurstaðan og menn hafa fundið það út að Sjómannaskólinn sem slíkur, sé óþarfur í nútímaþjóðfélagi og að aðsetur fyrir menntun sjómanna skuli fara fram einhverstaðar annarstaðar, enda sjómennska óþörf í þjóðfélagi lögfræðinnar.
Fyrir þessu má eflaust færa þau rök, að lögfræðiþrætur sé mun eldra og rótgrónara fyrirbæri en sjómennska og víst er það rétt að ekkert þjóðfélag getur þrifist með sæmilegum hætti nema að um það gildi lög.
Á eyju út í miðju Atlantshafi er samt gott að kunna til sjómennsku og Ísland hefði ekki byggst á sínum tíma, þó einhver lagatilskipun hefði komið til ein og sér.
Það þurfti kunnáttu til að sigla yfir hafið til að landið byggðist og þar sem við erum komin að þeirri niðurstöðu, að þó gott sé að lög ríki í landi, þá skulum við einnig átta okkur á því, að á eyju þurfa að vera til menntaðir sjómenn sem að sigla til annarra landa með varning á erlenda markaði og koma síðan til baka með það sem þjóðin þarfnast erlendis frá.
Að ógleymdum þeim sem hafa staðið undir þjóðfélginu á þann hátt, að hafa hæfileika og kunnáttu til að nýta fiskimiðin til öflunar verðmæta sem hægt er að selja öðrum þjóðum, þjóðinni til tekna.
Því væri nær að efla og styrkja alla aðstöðu til menntunar sjómannastéttarinnar, í stað þess að grafa undan henni.
Geti menn hins vegar fært fyrir því góð og gild rök, að lagaþrætur og dómar gefi meira af sér fyrir þjóðfélagið en sjómennska og það svo, að sú starfsgrein sé óþörf, þá verður að taka því.
Þar til það liggur ljóst fyrir, ættu ráðamenn þjóðarinnar að finna sér eitthvað annað og þarfara að gera en að grafa undan aðstöðu til menntunar íslensku sjómannastéttarinnar.
Þó hér sé að mestu fjallað um aðstöðu til menntunar sjómanna og störf þeirra, þá skulum við ekki gleyma öllum öðrum sem ekki stunda lögfræði né sjómennsku en þurfa svo sannarleg aðstöðu fyrir öflun þekkingar og þjálfunar.
Auk þess: að verður er verkamaðurinn launa sinna og munum að konur eru líka menn!

Færðu inn athugasemd