Svo fór liðið bara og brottförin kom ,,vel til greina“ og engu var ,,fórnað“!

Trúlega hafa einhverjir misst spón úr aski sínum, en huggunin er sú, að þeir koma einstöku sinnum og huga að dótinu sínu og taka kost í bátana sína og blikka utanríkisráðherruna sína sem var, en er ekki lengur.
Svo var farið á Þingvöll en enginn, eða fáir a.m.k. muna lengur til hvers.

Gengið var eftir gjánni stóru, barið í bresti og rifjað upp hvað eitt sinn var sagt um þau reginöfl sem skópu völlinn.
Að því loknu fóru allir heim til að leggja sig á meltuna og hugsa.

Og það var hugsað og hugsað og hugsað, þar til jörðin umhverfðist í Grindavík og nágrenni.
Þá fór hugsunin á æðra stig og enginn veit hvenær hún kemur til baka.
En fólkið sem býr í Grindavík gæti a.m.k. sumt hugsað sér að fara til baka þegar jörðin er komin í ró og við vonum að það verði hægt.
Vonandi verður ríkisstjórnin svo jarðbundin eftir tenginguna á völlunum að hún reynist fólkinu vel sem núna er á hrakhólum; hugsi fyrst um það og síðan um það hvernig stjórna skuli heiminum og þó helst ekki það.
Best væri að hún væri ekkert að hugsa um það sem hún ræður ekki við og einbeitti sér í staðinn að því, sem að kallar heimafyrir.
Við sjáum á kjólnum að það blæs um hópinn, loftar vel um, það frískar hugann og við höldum í vonina, því hún er þó eftir.

Færðu inn athugasemd