Kínverskur leiðtogi vekur athygli í Bandaríkjunum

Xi Jinping er komin til Bandaríkjanna, vekur athygli þarlendra og ung stúlka færir honum blóm.

Við sem höfum komið þangað vitum að þar býr gestrisið fólk sem sýnir sínar bestu hliðar þeim sem þangað koma, a.m.k. er það reynsla þess sem þetta ritar og þó langt sé síðan það var, þá gleymist það ekki.

Það hlýtur að vera upplyftandi fyrir Bandaríkjamenn að sjá og hitta leiðtoga frá landi, sem þeim hafa verið sagðar ýmsar sögur af í fjölmiðlum og er þeim framandi.

Karlinn er meira að segja dreginn upp í dráttarvél af tegund sem undirritaður var heillaður af, á sínum yngri árum.

Það má gera ráð fyrir að þessari gerð véla hafi farið fram frekar en hitt síðan það var og líklegt er að Xi hafi verið hrifinn og hann settist meira að segja undir stýri eins og sjá má.

Eitt er að stýra dráttarvél en annað er að stýra ógnarfjölmennu stórveldi og það hlýtur að hafa verið tilbreyting fyrir forsetann að reyna vélina, enda er brosað breitt.

Bandaríkjamenn búa við það að vera með forseta sem virðist varla vita hvort hvort hann er að koma eða fara og í komandi forsetakosningum virðist ekki sem neitt annað, betra né verra komi til með að verða í boði.

Bandaríkin eru lýðræðisríki hinna ríku og því eru það margir sem kalla það auðræðisríki, en hvað sem því líður, þá greinir sagan frá því að ýmsir ágætismenn hafa verið kostnir þar til forseta.

Staðan sem er uppi núna er í meira lagi sérstök, þar sem tveir háaldraðir menn berjast um völdin og báðir dálítið sérstakir, – svo það sé nú gætilega orðað.

Annar er forseti en hinn var forseti og þann síðarnefnda langar til að verða það aftur.

Sá sem nú er hefur haft lag á að troða illsakir við Rússa og einnig Kínverja, sem hann taldi senda til sín fljúgandi furðuhluti, sem snarlega voru skotnir niður.

Gagnvart Rússum hefur hann sýnt gamaldags takta og lagt sig fram um að styðja Úkraínu í átökum sem verið hafa milli ríkjanna allt frá 2014.

Reyndar er það svo að það getur verið dálítið erfitt að setja fingurinn á upphaf og endi á ergelsi og firru þar austur frá og fer það allt eftir því hvaða ártal menn vilja velja.

Það var létt yfir mannskapnum og við skulum vona að svo verði áfram og að heimsóknin verði frekar til að opna augu og huga en hið gagnstæða.

Færðu inn athugasemd